Íþróttamaður Akraness 2018, Valdís Þóra Jónsdóttir, var í nýju hlutverki á lokahringnum á Bonville mótinu sem er hluti af LET Evrópumótaröðinni í golfi.
Valdís Þóra komst ekki í gegnum niðurskurðinn á mótinu eftir fyrstu tvo keppnisdagana. Skagakonan tók í kjölfarið að sér það verkefni að vera Marianne Skarpnord frá Noregi til aðstoðar á lokahringnum.
Samnorræna verkefnið tókst gríðarlega vel því Skarpnord gerði sér lítið fyrir og sigraði á mótinu.
Leikið var í Ástralíu á Bonville mótinu en þaðan á Valdís Þóra góðar minningar. Hún náði sínum besta árangri á LET Evrópumótaröðinni á þessu móti fyrir ári síðan, þar sem hún endaði í þriðja sæti.
Það er jafnframt besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á atvinnumótaröð í efsta styrkleikaflokki.
Auglýsing
Auglýsing