Jólatónleikar á Akranesi skiluðu árangri – 165 teppi til barna í neyð


Skagamennirnir Gunnar Ágúst Ásgeirsson, Bjarki Þór Aðalsteinsson og Ólafur Dór Baldursson stóðu fyrir söfnunarátaki í desember s.l.

Á þeim tíma héldu þeir tónleika víðsvegar um Akranes við góðar undirtektir og verkefninu lauk síðan með jólatónleikum á Gamla Kaupfélaginu þann 28. desember s.l. þar sem að söngkonan Brynja Valdimarsdóttir tók einnig þátt.

Markmiðið var að safna fyrir UNICEF á Íslandi. Það er óhætt að segja að verkefnið hafi skilað árangri því á dögunum afhentu þeir Gunnar Ágúst og Bjarki Þór söfnunarféð til UNICEF á Íslandi.

Markmiðið var að safna fyrir hlýjum teppum í Sönnum gjöfum handa börnum í neyð. Þegar talið hafði verið upp úr kassanum kom í ljós að safnast höfðu 142.401 króna, eða nóg til að festa kaup á 165 hlýjum teppum.

Þetta kemur fram á heimasíðu UNICEF á Íslandi þar sem að þeim félögum er þakkað fyrir stuðninginn.

Svo sannarlega glæsilegt framtak hjá tónlistarmönnunum frá Akranesi og færir UNICEF á Íslandi þeim félögum, samstarfsaðilum og öllum þeim sem styrktu söfnun þeirra kærar þakkir fyrir. UNICEF sér um að senda teppin þangað sem þörfin er mest en þau eru meðal annars send í flóttamannabúðir þar sem mörg börn búa í köldum tjöldum yfir veturinn.Takk fyrir stuðninginn!

http://localhost:8888/skagafrettir/2019/12/27/stud-hja-gisla-rakara-gunni-bjarki-og-oli-dor-safna-fyrir-unicef/