TríóiðSírajón sem Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari, Einar Jóhannesson klarínettuleikari og Anna Áslaug Ragnarsdóttir píanóleikari skipa halda tónleika í þessari viku á Akranesi.
Tónleikarnir eru á vegum Listafélagsins Kalman og fara þeir fram fimmtudagskvöldið 10. mars kl. 20 í Vinaminni.
Sviðstónlist úr leikhúsinu rammar inn efnisskrá Tríós Sírajóns með mörgum stuttum og hnyttnum þáttum í verkum Poulencs og Hjálmars H. Ragnarssonar.
Þar á milli flytja þau tríósvítu Arutiunians, þar sem Armenskur andi svífur yfir vötnum, verk eftir Béla Bartók, einn af risum í klassískri tónlist síðustu aldar og tríó eftir ítalska tónskáldið Menotti sem einkennist af suðrænum sjarma og skemmtilegheitum.
Tríó Sírajón var stofnað á vordögum árið 2010 og hefur haldið fjölmarga tónleika víðsvegar um landið sem og erlendis. Tríóið efnir gjarnan til samstarfs með öðru tónlistarfólki og hefur pantað verk frá íslenskum tónskáldum og frumflutt. Nafn tríósins vekur jafnan forvitni en það er sótt til ættföður Reykjahlíðarættarinnar í Mývatnssveit, Síra Jóns Þorsteinssonar, sem er forfaðir hljóðfæraleikaranna þriggja.
Aðgangseyrir er kr. 3.000 en kr. 2500 fyrir Kalmansvini.
Boðið verður upp á kaffi og konfekt í hléi.