Stjórn Höfða leggst gegn hugmyndum um endurbætur á Árnahúsi við Sólmundarhöfða

 

Árnahús við Sólmundarhöfða var til umræðu í bæjarráði Akraness enn og aftur þar sem fjallað var um álit stjórnar Höfða á endurbótum á Árnahúsi við Sólmundarhöfða 2. 

Eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is lýsti bæjarráð yfir áhuga á að endurgera Árnahús við Sólmundarhöfða. Í bókun ráðsins frá því í janúar kemur fram að verkefnið gæti orðið að samfélagsverkefni þar sem að ýmsir aðilar myndu leggja hönd á plóginn.

 

Akraneskaupstaður lýsir yfir vilja að endurgera Árnahús í samvinnu við Minjastofnun Íslands

 

Á þeim fundi fól bæjarráð sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að skoða mögulegar útfærslur á endurbótum á Sólmundarhöfða 2 með tilliti til stækkunarmöguleika hjúkrunar- og dvalarheimilisins en leita álits stjórnar Höfða í þessu sambandi.

Stjórn Höfða hefur fjallað um málið og er það skoðun stjórnar að fyrirhugaðar endurbætur á Árnahúsi hamli framtíðaruppbyggingu á Höfða – og óskar stjórnin eftir því að húseignir við Sólmundarhöfð 2 verði fjarlægðar. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs sem er hér fyrir neðan. 

Á fundi stjórnar Höfða 30. janúar sl. samþykkti í stórn Höfða:
Stjórn Höfða leggst gegn framkvæmdum/endurbótum á Sólmundarhöfða 2 þar sem stjórnin telur að þær geti hamlað framtíðaruppbyggingu á Höfða. Þar sem stjórn Höfða hefur verulegar áhyggjur af ástandi húsnæðis á Sólmundarhöfða 2 og óttast að þær að hluta eða öllu leyti geti fokið á húsnæði Höfða, óskar hún eftir að ákvörðun verði tekin sem fyrst um að núverandi húseignir á Sólmundarhöfða 2 verði fjarlægðar.

Bæjarráð felur skipulags- og umhverfissviði að meta stækkunarmöguleika hjúkrunar- og dvalarheimilisins Höfða í samvinnu við stjórn Höfða. Óskar ráðið eftir myndrænni framsetningu á möguleikunum.