Hanna Dóra Sturludóttir messósópransöngkona og Snorri Sigfús Birgisson píanóleikari koma fram á næstu tónleikum Kalman listafélags í Vinaminni á Akranesi fimmtudaginn 23. febrúar kl. 20. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Á efnisskrá tónleika Hönnu og Snorra eru lög og aríur úr ýmsum áttum. Efnistökin eru lífið; ástir, draumar og söknuður í lífi hvers manns. Titill tónleikanna, „Lífsins gangur“ á því vel við enda fengin að láni úr einu ljóðanna.
Hanna og Snorri hafa starfað mikið saman á undanförnum árum, haldið fjölmarga tónleika bæði á Íslandi og erlendis og tekið upp efni sem er aðgengilegt á streymisveitunni Spotify.
Á efnisskrá tónleikanna má finna m.a. gullfalleg ljóðatónlist eftir eftir Schubert, Brahms, Fauré, Sibelius og Grieg, íslensk sönglög eftir Atla Heimi Sveinsson og Magnús Blöndal og aríuna Habanera úr Carmen eftir Bizet.
Miðaverð er kr. 3.500 en kr. 3.000 fyrir Kalman félaga.
Miðasala er við innganginn.
Kaffi og konfekt í hléi.
Allir velkomnir!
Hanna Dóra Sturludóttir hefur um árabil verið ein af okkar fremstu söngkonum og átt farsælan feril á óperusviði og tónleikapalli víða um heim. Fjöldi þeirra hlutverka sem hún hefur sungið eru nú um 60 talsins.
Hanna Dóra hefur komið reglulega fram á ljóðatónleikum, sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands á fjölmörgum tónleikum og síðastliðin ár hefur hún sungið ýmis hlutverk í sýningum Íslensku óperunnar.
Má þar helst nefna titilhlutverkið í Carmen, Eboli prinsessu í Don Carlo, Donnu Elviru í Don Giovanni, Brothers eftir Daniel Bjarnason og Marchellinu í Brúðkaupi Figarós. Árið 2014 hlaut Hanna Dóra Íslensku tónlistarverðlaunin og fylgdi þeim nafnbótin „Söngkona ársins“ fyrir túlkun hennar á Eboli prinsessu.
Hanna Dóra leggur sérstaka áherslu á flutning nýrrar tónlistar og hefur unnið náið með Snorra Sigfúsi Birgissyni tónskáldi undanfarin ár. Hún vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í óperunni KOK sem frumflutt var í Borgarleikhúsinu vorið 2021 og var tilnefnid til Grímuverðlaunanna og íslensku tónlistarverðlaunanna í kjölfarið. Hanna Dóra er prófessor og fagstjóri söngs við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.
Snorri Sigfús Birgisson stundaði píanónám fyrst hjá Gunnari Sigurgeirssyni en innritaðist síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hann á píanó hjá Hermínu S. Kristjánsson, Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni en lagði einnig stund á tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni. Hann lauk einleikaraprófi 1974.
Á árunum 1974-1975 stundaði hann framhaldsnám í píanóleik hjá Barry Snyder við Eastman School of Music í Bandaríkjunum, 1975-76 tónsmíðanám í Osló hjá Finn Mortensen (enn fremur nám í raftónlist hjá Lasse Thoresen og „sonology“ hjá Thoresen og Olav Anton Thommessen) og 1976-1978 lærði hann tónsmíðar hjá Ton de Leeuw í Amsterdam.
Snorri hefur starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og stjórnandi síðan hann kom heim frá námi (1980). Hann hefur samið einleiksverk, söngverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist og sinfónísk verk auk þess að útsetja fjöldan allan af íslenskum þjóðlögum. Hann er félagi í CAPUT hópnum.