Valdís Eyjólfsdóttir er nýr framkvæmdastjóri hjúkrunar – og dvalarheimilisins Höfða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Höfða. Hún tekur við starfinu af Kjartani Kjartanssyni.

Í tilkynningunni kemur eftirfarandi fram:

„Valdís er með BSc. í Viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Auk þess er hún með verðbréfaréttindapróf frá sama skóla ásamt því að vera vottaður fjármálaráðgjafi. Að auki hefur hún lokið fjölmörgum námskeiðum sem nýtast henni í starfi sem framkvæmdastjóri.

Valdís býr yfir meira en 20 ára reynslu af stjórnun, fjármálagreiningu, ferlaumbótum og mannauðsstjórnun, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Hún hefur m.a. starfað hjá Íbúðalánasjóði, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Íslandsbanka og núna síðast hjá Akraneskaupstað. Hún hefur náð góðum árangri í fjárhagslegri endurskipulagningu, innleiðingu tæknilausna og fjölbreyttum umbótaverkefnum.

Alls bárust 14 umsóknir. Tvær umsóknir bárust eftir að umsóknarfresti lauk og ein umsókn var dregin til baka áður en umsóknarfresti lauk. Ákveðið var að bjóða átta umsækjendum í starfsviðtal. Sjö af þeim þáðu það en einn dró umsókn sína til baka. Þremur af þeim sjö sem fóru í viðtal var boðið í framhaldsviðtal. Að þeim loknum var ákveðið að ráða Valdísi í starf framkvæmdastjóra.“