Umsókn Löðurs um að hefja rekstur á bílaþvottastöð á Innesvegi 1 hefur verið til málsmeðferðar hjá stjórnsýslunni á Akranesi í tæp 2 ár.

Á fundi bæjarstjórnar sem fram fór þann 10. september var samþykkt að vísa málinu að nýju til skipulags – og umhverfisráðs.

Ráðið lagði það til við bæjarstjórn að breyting á aðalskipulagi yrði samþykkt – og að starfsemi Löðurs gæti hafist.

Á fundi bæjarstjórnar í gær lagði Einar Brandsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fram málsmeðferðartillögu um að vísa málinu að nýju til skipulags- og umhverfisráðs með ósk um að aflað verði lögfræðiálits varðandi athugasemdir sem Heilbrigðiseftirlitið setur fram varðandi fyrirhugaða breytingu um að heimila starfsemi bílaþvottastöðvar. Í máli Einars á fundinum kom fram að hann vildi einfaldlega tryggja það að Akraneskaupstaður væri ekki skaðabótaskyldur ef starfssemi bílaþvottastöðvar myndi skaða með einhverjum hætti starfsemi matvælafyrirtækis sem er í sama húsi.

Töluverð umræða var um þetta á mál á bæjarstjórnarfundinum en bæjarfulltrúar fóru alls 16 sinnum í ræðustól undir þessum lið fundarins.

Tillaga Einar var samþykkt með 6 atkvæðum gegn 3.

Á fundinum kom fram að umsókn Löðurs um bílaþvottastöð á þessum stað hafi verið mótmælt kröftuglega af íbúum í Akranesi. Þar kom einnig fram að Heilbrigðiseftirlitið leggist gegn því bílaþvottastöð verði sett upp í næsta rými við matvælafyrirtæki (Kallabakarí).

Hér fyrir neðan eru fréttir um væntanlega bílaþvottastöð.

Í breytingunni er gert ráð fyrir bílaþvottastöð með opnunartíma kl 06-24 í núverandi húsnæði – en bílaumboðið Askja var með starfsstöð í þessu rými. 

Í skipulagsuppdrætti kemur fram að áhrif á fráveitukerfi séu ekki talin vera veruleg þar sem krafa er um sand- og olíuskilju með vöktunarbúnaði til að meðhöndla olíumengað vatn til samræmis við reglugerð.

Unnin var hljóðvistarskýrsla þar sem fram kemur að hurðir þurfa að vera lokaðar á bílaþvottastöðinni á meðan á þvotti og þurrkun stendur til að unnt sé að uppfylla viðmið reglugerðar gagnvart umhverfinu. Gerð er krafa í deiliskipulagsbreytingunni að hurðir skuli vera lokaðar við hávaðasama starfsemi. Einnig voru skoðuð möguleg áhrif vegna umferðar og sýndu útreikningar að hljóðstig vegna umferðar bifreiða tengdri starfseminni verður innan allra viðmiðunargilda staðla og reglugerða. Því er ekki talið að áhrifin á hljóðvist séu veruleg.

Unnið var minnisblað um mögulega ljósmengun í tengslum við umferð um lóðina. Gerð er krafa í deiliskipulagsbreytingunni um skerm/girðingu til þess að koma í veg fyrir ljósmengun og því ekki talið að ljósmengun verði veruleg.

Bílaþvottastöðin er sjálfsafgreiðslustöð en ekki verður heimilt að nýta hana á nóttunni, þ.e. milli kl 24-06. Þar sem tekið er tillit til mögulegra áhrifa af hávaða og ljósmengun er ekki talið að opnun hafi neikvæð umhverfisáhrif.

Breyting á aðalskipulagi sjá hér

Skipulagsuppdráttur sjá hér

Skýringaruppdráttursjá hér