
„Okkur langaði að gera enn betri jólastemningu á Akranesi – og í framhaldinu varð til þessi hópur sem stendur á bak við „Pop up Jólamarkaðinn“ sem verður í „Skemmunni“ á Breiðargötu 2 á Akranesi helgina 29.-30. nóvember,“ segir Elísa Svala Elvarsdóttir – og hún lofar að gestir upplifi jólalega – og huggulega stemningu.
Markaðurinn verður opinn frá 12-16 báða dagana.

Alls eru 9 einstaklingar sem standa á bak við verkefnið
„Við erum listafólk og hönnuðir, flest okkar eru á Akranesi með starfsemi en einnig eru aðilar úr Reykjavík. Það verður margt áhugavert í boði á þessum markaði. Þar má nefna, handgerðar jólakúlur, listaverk, hurðakransar, aðventukransar, keramik, skreytingar, húfur, treflar, gjafamiðar, skartgripir, garn, smátré og gjafabréf,“ segir Elísa Svala og bætir við.
„Að sjálfsögðu verður eitthvað gott á boðstólum. Heitt kakó frá Frystihúsinu og Dons Donuts matarvagninn verður á svæðinu,“ en Elísa Svala er eigandi SvöluStrá sem sérhæfir sig í blómaskreytingum og hönnun á því sviði.









