Akraneskaupstaður fundaði nýverið með fulltrúum frá Hraun 900 Fasteignafélags ehf. vegna kaupa á Suðurgötu 57 (gamla Landsbankahúsið) og lóðar við Suðurgötu 47.

Fulltrúar félagsins hittu sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs og skipulagsfulltrúa – og hefur bæjarráð falið bæjarstjóranum Haraldi Benediktssyni frekari úrvinnslu málsins.

Þrír aðilar hafa sýnt því áhuga að kaupa gamla Landsbankahúsið við Akratorg.

 

Þeir sem eru skráðir sem eigendur Hraun 900 Fasteignafélags ehf. eru Ívar Freyr Sturluson, Höskuldur Gunnlaugsson og Guðjón Pétur Lýðsson.

Ívar Freyr, Höskuldur og Guðjón Pétur hafa á undanförnum árum verið í samstarfi með fyrirtækið Skjálausnir en þeir hafa allir komið víða við í nýsköpun og rekstri.

Höskuldur er fyrirliði knattspyrnuliðs Breiðabliks og Guðjón Pétur á langan feril að baki sem leikmaður í efstu deild í knattspyrnu.

Ívar Freyr á einnig feril í fótboltanum en hann hefur komið að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum á undanförnum árum.

Akraneskaupstaður auglýsti í febrúar s.l. eftir eftir samstarfsaðila til þess að blása lífi í svæðið við Akratorg. Þar var efst á baugi að selja gamla Landsbankahúsið samhliða því að hefja uppbyggingu á svæðum við Suðurgötu 57, 47 og Skólabraut 24.

Á fyrri hluta þessa árs barst ekkert tilboð um kaup á húsinu en nú virðist sem hreyfing sé komin á málið.