
Ólafur Páll Gunnarsson sendi nýverið fyrirspurn til skipulags- og umhverfisráðs þar sem hann viðrar þá hugmynd að flytja húsið sem hann á við Skólabraut 33.
Húsið, Sunnuhvoll, er í dag mikið bæjarprýði. Útvarpsmaðurinn Óli Palli hefur lagt mikla vinnu í að endurgera og laga húsið sem var byggt árið 1910. Hann keypti húsið árið 2014 en á þeim tíma var það í mjög slæmu ástandi.

Nánar í þessari frétt á skagafrettir.is
Sunnuhvoll myndasyrpa: Ótrúlegar breytingar hjá Óla Palla útvarpsmanni
Ólafur Páll spurði ráðið hvort skipulagsleg, lagaleg eða önnur atriði standi í vegi fyrir því að húsið að Skólabraut 33 verði flutt af lóðinni, með það fyrir augum að annaðhvort selja lóðina eða reisa þar nýja byggingu.
Í svari ráðsins kemur fram að breyta þurfi deiliskipulagi til þess að slík framkvæmd verði leyfð en svarið er í heild sinni hér fyrir neðan:
Samkvæmt núgildandi deiliskipulagi fellur Skólabraut 33 undir hverfisvernd sem þýðir að ekki er hægt að breyta, fjarlægja eða rífa núverandi húsnæði af lóðinni nema með breytingu á deiliskipulagi. Ef farið verður áfram með málið krefst það ítarlegrar umsóknar og jafnframt umsögn Minjastofnunar en umrætt hús er byggt fyrir 1925. Skipulagsfulltrúa er falið að svara erindinu.

„Það er dásamlegt að búa í húsinu“
„Ég er bara að velta mér fyrir mér hvað ég á að gera við restina af lífinu,“ segir Ólafur Páll við skagafrettir.is.
„Allt mitt fólk er flutt frá Akranesi til Reykjavíkur og þau eru að ýta á mig að flytja líka. Ég var í 3 ár öllum stundum að gera upp þetta hús sem mér finnst dásamlegt að búa í. Ef ég flyt þá þá vildi ég skoða þá möguleika sem eru í stöðunni á flutningi á húsinu. Það er alltaf verið að flytja svona hús. Það var hús hér við götuna (Geirstaðir) sem var flutt á byggðasafnið árið 1994 til þess að yrði ekki rifið. Ég bendi einnig á þá staðreynd að það er nú þegar heimild til þess að rífa gamla Landsbankahúsið, sem er ansi mikið stærra kennileiti við Akratorg en mitt gula hús,“ segir Ólafur Páll við skagafrettir.is.










