Lúðvík nýr yfirmaður hjá KSÍ – hættir þjálfun hjá Kára

Auglýsing



Lúðvík Gunnarsson hefur verið ráðinn nýr yfirmaður Hæfileikamótunar N1 og KSÍ, en hann tekur við af Þorláki Árnasyni. Lúðvík hefur þjálfað lið Kára með góðum árangri á undanförnum árum og er ljóst Skagamaðurinn þarf að hætta í því starfi á allra næstu vikum. Jafnframt hefur Lúðvík unnið lengi hjá Akraneskaupstað sem deildarstjóri í Þorpinu.

Samkvæmt heimildum Skagafrétta sóttu alls 14 aðilar um starfið hjá KSÍ. Lúðvík er ekki fyrsti Skagamaðurinn sem stýrir Hæfileikamótun N1 og KSÍ. Dean Martin var áður í þessu starfi en Þorlákur Árnason tók við af Dean. Skagatengingin er einnig hjá Þorláki en hann var yfirþjálfari yngri flokka hjá ÍA um tíma.

Margir Skagamenn starfa nú hjá KSÍ í fullu starfi. Nýverið var Jón Þór Hauksson ráðin sem þjálfari A-landsliðs kvenna, Þórður Þórðarson hefur unnið um talsverðan tíma sem þjálfari U-19 ára landsliðs kvenna og Óskar Örn Guðbrandsson er í markaðs – og kynningarmálum hjá KSÍ.

Lúðvík hefur starfað lengi við knattspyrnu, en hann hefur verið þjálfari Kára frá árinu 2016. Á þeim tíma hefur hann komið liðinu upp í 2. deild, en þar endaði það í 5. sæti á síðasta tímabili. Hann þjálfaði einnig meistaraflokk kvenna hjá ÍA árin 2008 og 2009.

Ásamt því að þjálfa Kára á síðasta ári hefur hann verið yfirþjálfari yngri flokka ÍA. Einnig hefur hann þjálfað yngri flokka á Akranesi síðastliðin ár.

Auglýsing



Auglýsing