Auglýsing
Lúðvík Gunnarsson hefur verið ráðinn nýr yfirmaður Hæfileikamótunar N1 og KSÍ, en hann tekur við af Þorláki Árnasyni. Lúðvík hefur þjálfað lið Kára með góðum árangri á undanförnum árum og er ljóst Skagamaðurinn þarf að hætta í því starfi á allra næstu vikum. Jafnframt hefur Lúðvík unnið lengi hjá Akraneskaupstað sem deildarstjóri í Þorpinu.
Samkvæmt heimildum Skagafrétta sóttu alls 14 aðilar um starfið hjá KSÍ. Lúðvík er ekki fyrsti Skagamaðurinn sem stýrir Hæfileikamótun N1 og KSÍ. Dean Martin var áður í þessu starfi en Þorlákur Árnason tók við af Dean. Skagatengingin er einnig hjá Þorláki en hann var yfirþjálfari yngri flokka hjá ÍA um tíma.
Margir Skagamenn starfa nú hjá KSÍ í fullu starfi. Nýverið var Jón Þór Hauksson ráðin sem þjálfari A-landsliðs kvenna, Þórður Þórðarson hefur unnið um talsverðan tíma sem þjálfari U-19 ára landsliðs kvenna og Óskar Örn Guðbrandsson er í markaðs – og kynningarmálum hjá KSÍ.
Lúðvík hefur starfað lengi við knattspyrnu, en hann hefur verið þjálfari Kára frá árinu 2016. Á þeim tíma hefur hann komið liðinu upp í 2. deild, en þar endaði það í 5. sæti á síðasta tímabili. Hann þjálfaði einnig meistaraflokk kvenna hjá ÍA árin 2008 og 2009.
Ásamt því að þjálfa Kára á síðasta ári hefur hann verið yfirþjálfari yngri flokka ÍA. Einnig hefur hann þjálfað yngri flokka á Akranesi síðastliðin ár.
Auglýsing
Auglýsing