Viðræður um áframhaldandi ferjusiglingar á næstu ári eru hafnar og mun það vonandi skýrast fljótlega hvort að af verður. Þetta kemur fram á vefnum akranes.is.
Ferjan Akranes hóf siglingar þann 19. júní s.l. Um var að ræða sex mánaða tilraunaverkefni sem lauk reyndar einum mánuði fyrr þar sem ferjan var seld til Spánar. Sæferðir Eimskip sáu um reksturinn og var ferjan leigð frá Noregi.
Akraneskaupstaður telur mikilvægt að hafa fjölbreytileika í almenningssamgöngum fyrir íbúa og að áframhaldandi ferjusiglingar myndum nýtast íbúum vel. Jafnframt myndi það gefa aukin tækifæri fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á Akranesi og á Vesturlandi öllu.
„Mikilvægt er að markaðssetja ferjusiglingar með góðum fyrirvara og er það von okkar von að samningaviðræður náist sem fyrst og að við getum byrjað að kynna siglingar á ný milli Akraness og Reykjavíkur“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi.
Alls voru það rúmlega 3600 manns sem nýttu sér ferjuna þessa fimm mánuði.