Risa menningarviðburður verður á dagskrá á Akranesi laugardaginn 28. apríl. Söngkeppni framhaldsskólanna fer þá fram í íþróttahúsinu við Vesturgötu.
Þetta er í fyrsta sinn sem þessi viðburður fer fram á Akranesi en sýnt verður beint frá keppninni í sjónvarpi. Það eru Vinir Hallarinnar sem sjá um framkvæmdina.
Ísólfur Haraldsson og félagar hans í Vinum Hallarinnar tóku þetta verkefni af sér nýverið en um tíma var óvíst að þessi keppni færi fram.
Tilkynning þess efnis var birt í byrjun apríl s.l. og í þeirri tilkynningu kom fram að keppnin færi ekki fram í ár. Ekkert varð af keppninni í fyrra eða árið 2017.
Alls taka 23 framhaldsskólar þátt og segir Ísólfur að markmiðið sé að halda keppnina með glæsibrag. Eins og áður segir kom verkefnið upp í hendurnar á Vinum Hallarinnar með skömmum fyrirvara.
Á undanförnum dögum hafa margir lausir endar verið hnýttir og vilja aðstandendur keppninnar þakka þeim fyrir sem hafa lagt hönd á plóginn að undanförnu.
Þessi keppni á sér langa sögu. Fyrst var keppt árið 1990 og hafa margir þekktir listamenn stigið sín fyrstu skref á ferlinum í þessari keppni.