Mikið líf í Akraneshöfn – 860 tonn frá því í janúar

Mikið líf hefur verið í Akraneshöfn að undanförnu. Handfærabátar og línubátar hafa veitt mikið að undanförnu á Akranesmiðum. Samhliða veðurblíðu og góðum gæftum hefur þorskveiðin verið gríðarlega mikil.

Þetta kemur fram á síðu sem kallast Sjávarsíðan Akranessem er ætluð áhugafólki um hafnar- og atvinnulífið við Akraneshöfn.

Á síðunni kemur það m.a. fram að Eskey sem gerði út á línu aflaði gríðarlega vel síðustu viku eða um 70 tonn.

Handfærabátar að sama skapi voru með mokafla en um 9 til 10 bátar gerðu út á handfæri eftir hrygningarstoppið en lauslega áætlað var landað um 170 tonnum af þorski á rétt um vikutíma.

Grásleppubátar hafa einnig gert það gott en í apríl hafa borist að landi á annað hundrað tonn af grásleppu. Þá hafa Sæbjúgun verið drjúg en Klettur og Ebbi hafa sótt þá gersemi og aflað vel eða á þriðja hundrað tonn.

Við þetta má bæta að frá því að samstarf við Fiskmarkað Snæfellsbæjar og löndurþjónusta hófst að nýju í lok janúar s.l. hefur því verið landað um 860 tonnum af smábátum á Akranesi.  Sé horft til sama tímabils á síðasta ári er það um 37% aukning á milli ára.



Á Sjávarsíðan Akranes fá þeir sem standa að Fiskmarkaði Snæfelslbæjar miklar þakkir og er sagt frá því að samstarfið hafi gengið að óskum. Sömu sögu er að segja af Faxaflóahöfnum og Akraneskaupstað. Það sama á við um Faxaflóahafnir og Akraneskaupstað en um tíma leit út fyrir að smábátaútgerð frá Akranesi legðist að mestu af.

Haft er eftir Pétri skipstjóra á Hildi að aðstaðan og þjónustan í Akraneshöfn sé til fyrirmyndar. Orðrétt sagði Pétur:  „Ekki er til betri bryggja til löndunar við Faxaflóa nema ef vera skildi í Himnaríki.”