Ný þjónustumiðstöð eldri borgara mun rísa við Dalbraut

Félagsmenn í Félagi eldri borgara á Akranesi voru ánægðir í dag þegar skrifað var undir samning um byggingu á nýrri þjónustumiðstöð fyrir aldraða á Akranesi.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness og Jón Ágúst Garðarsson skrifuðu í dag undir samning þess efnis í núverandi aðstöðu FEBAN við Kirkjubraut 40 – en fjölmenni var á fundinum.

Frá vinstri: Jón Ágúst Garðarsson og Guðjón Helgi Guðmundsson voru viðstaddir undirritunina í dag fyrir hönd Bestla. Ólafur Adolfsson, Sævar Freyr Þráinsson og Viðar Einarsson.

Aðstöðumál FEBAN hafa um langan tíma verið í óvissu. Í mars árið 2014 var ákveðið að þjónustumiðstöðin yrði í húsnæði við Dalbraut 6 þar sem að áður var bifreiðastöð ÞÞÞ.

Fram kom á fundinum í dag að húsið við Dalbraut 6 verður rifið og uppbygging svæðinu miðast við að gera svæðið eftirsóknarvert fyrir eldri íbúa Akraness.

Auglýsing




Með samningi Akraneskaupstaðar við leigufélagið Bestla sem var undirritaður í dag er ljóst að framtíðarheimili þjónustumiðstöðvar aldraðra á Akranesi verður í nýjum sal sem byggður verður við Dalbraut 4. 

Gert er ráð fyrir verktakinn skili rýminu fokheldu í lok ársins 2019 og á vormánuðum 2020 gæti starfssemi hafist í þjónustumiðstöðinni.

Þjónustumiðstöð aldraðra á Akranesi verður á einni hæð og heildarstærðin er um 1270 fermetra á einni hæð. Byggingin verður alls fimm hæðir og bílakjallari fyrir íbúa hússins.

Það var hátíðarstemning í dag þegar gengið var frá samkomulaginu.

Til máls tóku Viðar Einarsson formaður FEBAN, Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, Sigurður Páll Harðarson sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs, Ólafur Adolfsson formaður bæjarráðs.

Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir formaður velferðar-og mannréttindaráðs fór yfir helstu niðurstöður íbúafundar um málefni eldri borgara, og Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra tók einnig til máls.

Ólafur Adolfsson tók það sérstaklega fram í dag að Ingimar Magnússon ætti stóran þátt í því að þetta verkefni væri komið í „höfn“. Ólafur sagði að Ingimar hefði bent á sáttaleiðir í ferlinu sem hefðu skilað góðum árangri og klöppuðu fundargestir vel fyrir Ingimari sem er hér á myndinni fyrir ofan.

Jón Ágúst Garðarsson og Guðjón Helgi Guðmundsson voru viðstaddir undirritunina í dag fyrir hönd Bestla.

Leigufélagið Bestla var stofnað í mars 2011 af feðgunum Garðari Erlendssyni og Jón Ágústi Garðarssyni. Garðar og Jón Ágúst eru báðir menntaðir blikksmiðameistarar ásamt því er Jón Ágúst Véla- og Orkutæknifræðingur.

Samanlagt hafa þeir 70 ára starfsreynslu í verktakageiranum og hafa komið að fjölda verkefna að öllum stærðum. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróunarverkefnum fasteigna, ásamt leigu og sölu á fasteignum.

 

Auglýsing



Auglýsing