Sigríður nýr verkefnastjóri atvinnumála hjá Akraneskaupstað

„Akranesbær er framsækið bæjarfélag sem hefur stutt vel við íbúa sína á sviðum stoðþjónustu, tómstunda og íþróttaiðkunnar. Bærinn er aðlaðandi fyrir fjölskyldufólk meðal annars vegna þess góða starfs sem hefur verið unnið á þeim sviðum. Ég er full tilhlökkunar til að taka þátt í að gera Akranesbæ enn betra bæjarfélag í fyrirhuguðu átaksverkefni á sviði atvinnumála“ segir Sigríður Steinunn Jónsdóttir í viðtali á vef Akraneskaupstaðar.

Sigríður Steinunn mun hefja störf þann 1. desember n.k. sem verkefnastjóri atvinnumála hjá Akraneskaupstað. Staðan var auglýst í byrjun september síðastliðinn. Alls bárust 27 umsóknir um starfið.

Sigríður Steinunn er rekstrarverkfræðingur að mennt frá Danmarks Tekniske Universitet.

Sigríður vann á árunum 2014-2017 hjá Uno-x Smøreolie sem verkefnaráðgjafi. Þar stýrði hún m.a. lánum til viðskiptavina ásamt innleiðingu á rafrænu innheimtukerfi. Síðustu tvö ár hefur Sigríður starfað hjá Falck Global Assistance sem verkefnastjóri og voru verkefni hennar m.a. bestun alþjóðlegu virðiskeðjunnar og endurskoðun ferla með áherslu á kostnað og verðlagningu. Nú síðast hefur Sigríður starfað í tímabundnum verkefnum fyrir Kaupfélag Skagfirðinga um fýsileika fjárfestingakosti. Sigríður hefur í gegnum störf sín öðlast mikla þekkingu á verkefnastýringu ásamt framsetningu efnis og greiningu gagna.

Ráðning þessi er í samræmi við áherslur í málefnasamningi meirihlutans á Akranesi þar sem verkefnin framundan í tengslum við atvinnuuppbyggingu eru allmörg og viðamikil.

„Akranes stendur á tímamótum og eru mikil sóknartækifæri í atvinnuuppbyggingu hér í bæ. Hyggst Akraneskaupstaður sækja fram í að bjóða fjárfestum, fyrirtækjum og frumkvöðlum möguleika á uppbyggingu. Í nýjum atvinnureit í Flóahverfi er í boði glæsilegur byggingareitur fyrir fjölbreyttan iðnað og hátæknifyrirtæki. Á sementsreit verður byggingarrými fyrir 14.800 fm af skrifstofu og verslunarrými ásamt einstökum hótelreit við höfnina. Vinna við skipulag Akraneshafnar miðar að því að styðja við atvinnusköpun í sjávartengdum iðnaði svo eitthvað sé nefnt“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri í viðtali á vef Akraneskaupstaðar.

Auglýsing