Breytingar í stjórnendahóp hátæknifyrirtækisins Skagans 3XBreytingar hafa verið gerðar í stjórnendahóp hátæknifyrirtækisins Skagans 3X sem er með höfuðstöðvar sínar hér á Akranesi.

Skaginn 3X styrkir stjórnendateymi félagsins til að mæta framtíðarvexti segir í fréttatilkynningu félagsins sem hefur ráðið inn Baldvin Johnsen sem fjármálastjóra sem og ráðið Öldu Hlín Karlsdóttur í nýtt hlutverk við stjórn sölu – og markaðsmála.

Alda Hlín Karlsdóttir, sem gekk til liðs við Skagann 3X á síðasta ári, mun stýra sölu- og markaðsmálum félagins í samvinnu við Ingólf Árnason, framkvæmdastjóra og stofnanda félagsins, auk þess að stýra skrifstofu Skagans 3X í Reykjavík.

Baldvin Johnsen, fyrrverandi framkvæmdastjóri FrigoCare í Noregi, hefur verið ráðinn fjármálastjóri hátæknifyrirtækisins Skagans 3X og mun hefja störf þann 1. mars næstkomandi.

Baldvin er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Áður en hann tók við framkvæmdastjórn FrigoCare, sem er dótturfélag Samskipa, starfaði hann sem fjármálstjóri sama félags í fjögur ár.

„Skaginn 3X er á meðal framsæknustu fyrirtækja á Íslandi og leiðandi í sínum geira á heimsvísu. Félagið hefur vaxið ört síðustu ár. Ég hlakka til þess að vinna að áframhaldandi vexti og móta stefnu félagsins í samvinnu við hæfileikaríkt starfsfólk þess,“ segir Baldvin.

Baldvin er með reynslu af rekstri og fjármálastjórnun fyrirtækja. Hann hefur starfað í tengslum við sjávarútveg síðustu 13 ár, þar á meðal sem fjárreiðustjóri Ísfélags Vestamannaeyja áður en hann réð sig til FrigoCare, og sem slíkur var hann ábyrgur fyrir fjárstýringu og áhættustýringu Ísfélagsins.

Alda Hlín Karlsdóttir, sem gekk til liðs við Skagann 3X á síðasta ári, mun stýra sölu- og markaðsmálum félagins í samvinnu við Ingólf Árnason, framkvæmdastjóra og stofnanda félagsins, auk þess að stýra skrifstofu Skagans 3X í Reykjavík.

Áður en Alda gekk til liðs við Skagann 3X var hún rekstrarstjóri Icelandic Group. Hún hefur áralanga reynslu í sölu- og rekstrarmálum og hefur sinnt slíkum stöfum í fyrir sveitarfélög og fjármálafyrirtæki.

„Ég hlakka til þess að takast á við nýtt hlutverk. Verkefnastaða Skagans 3X er gífurlega sterk á öllum lykilmörkuðum félagsins og ég tek þeirri áskorun fagnandi sem aukinni ábyrgð fylgir,“ segir Alda Hlín.

Jón Birgir Gunnarsson, fyrrverandi sölu- og markaðsstjóri félagsins, hefur samið um starfslok sín og hefur tekið við sem framkvæmdastjóri Gluggasmiðjunar eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá.

„Nú er tímabært að nýtt fólk taki við keflinu með það að markmiði að byggja ofan á þann góða árangur sem náðst hefur. Þetta er jafnframt rétti tíminn fyrir mig til að takast á við nýjar áskoranir,“ segir Jón Birgir.

Hátæknifyrirtækið Skaginn 3X þróar, framleiðir og selur tækjabúnað fyrir matvælaiðnaðinn, einkum fiskvinnslu. Fyrirtækið hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar á síðustu árum, svo sem Útflutningsverðlaun Forseta Íslands árið 2017 og Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar sama ár.

„Við hjá Skaganum 3X bjóðum Baldvin velkominn til starfa og óskum Öldu Hlín til hamingju með nýtt hlutverk. Ráðning Baldvins er í takt við aukin umsvif og rökrétt skref fyrir félag í örum vexti,“ segir Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri Skagans 3X

„Við þökkum Jóni Birgi fyrir vel unnin störf og óskum honum velferðar á nýjum vettvangi. Hér hjá Skaganum 3X starfar frábært fólk og það er metnaður okkar að halda því þannig.“

Um Skaginn 3X

Skaginn 3X á traustar rætur í íslenskum sjávarútvegi og hefur haslað sér völl á alþjóðlegum markaði segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Fyrirtækið býr að áratuga reynslu í framleiðslu hátæknilausna fyrir matvælaiðnað. Markmið þess er að vera leiðandi í hönnun og þróun á kæli- og frystibúnaði fyrir matvælaframleiðslu.

Meginstarfsstöðvar fyrirtækisins eru á Akranesi, Ísafirði og Reykjavík. Öll aðstaða og tæknibúnaður stenst ítrustu kröfur um tækni og býður upp á ströngustu prófanir á öllum kerfum og búnaði segir þar jafnframt. Margt af okkar ágæta starfsfólki hefur verkfræði- og hugbúnaðarmenntun auk áratuga reynslu í þeim greinum sem og af fiskveiðum og sjávarútvegi.

Skaginn 3X er hátæknifyrirtæki og meginstyrkur þess er sagður liggja í stöðugri frumkvöðla- og nýsköpunarhugsun. Áhersla sé lögð á að bjóða lausnir í hæsta gæðaflokki og ryðja braut nýrrar tækni sem færir viðskiptavinum okkar og umhverfinu verulegan ávinning.

AuglýsingAuglýsing