„Það er mikilvæg viðurkenning fyrir okkur hjá Grammatek að fá styrk frá Rannís í þetta verkefni,“ segir Skagakona Anna Björk Nikulásdóttir sem er annar tveimur eigendum frumkvöðlafyrirtækisins Grammateks ehf.
Nýverið fékk samstarfsverkefni Akraneskaupstaðar og Grammateks ehf. myndarlegan styrk frá Rannís, úr Markáætlun í tungu og tækni.
Markmið verkefnisins er að þróa frumgerð hugbúnaðar til sjálfvirkrar spurningasvörunar í gegnum heimasíðu Akraneskaupstaðar.
Frá þessu er greint á vef Akraneskaupstaðar.
Íbúar munu þannig geta fengið skjót svör við ýmsum spurningum er varða þjónustu kaupstaðarins í gegnum vefinn, óháð opnunartíma þjónustuvers.
„Verkefni eins og hér um ræðir er hið fyrsta sinnar tegundar fyrir íslensku. Það er okkur sannkallaður heiður að fá að taka þátt í þróun íslenskrar máltækni, en stór áform eru uppi um að íslenska verði gjaldgeng í tölvum og tækjum í nánustu framtíð“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri.
Grammatek ehf. er nýtt frumkvöðlafyrirtæki á sviði máltækni á Akranesi, en máltækni fæst við margs konar hugbúnaðarþróun sem gerir tölvum kleift að vinna með tungumál. Sævar segir að mikilvægt sé að stuðla að fjölbreyttu frumkvöðlaumhverfi í bænum og einstaklega jákvætt að fyrirtæki sem fæst við framtíðartækni eins og máltækni sé nú staðsett á Akranesi.
Fyrstu skrefin í verkefninu eru að setja upp vefviðmót fyrir gagnasöfnun.
Annars vegar verða almennar spurningar, sem koma inn í þjónustuver, skráðar í gagnagrunn, en hins vegar verður leitað til bæjarbúa. Spurningasöfnun frá almenningi mun fara af stað í byrjun sumars og verður nánar auglýst síðar. Spurningasöfnin verða nýtt í greiningar- og þróunarvinnu fyrir verkefnið, en á síðustu stigum þess, í lok mars 2020, er áætlað að frumgerð hugbúnaðar verði tilbúin.
Verkefnisstjóri er Anna Björk Nikulásdóttir, annar eiganda Grammateks. „Það er mikilvæg viðurkenning fyrir okkur hjá Grammatek að fá styrk frá Rannís í þetta verkefni. Sömuleiðis er ánægjulegt að fá samstarfsaðila í Akraneskaupstað sem er áhugasamur um að styðja við hugbúnaðarþróun hér í heimabyggð og vona ég að útkoman muni gagnast íbúum. Þannig að ég er full tilhlökkunar fyrir samstarfinu sem nú er að hefjast.“ segir Anna Björk.