Hafragrautaruppáhellari Önnu og Oliwiu skilaði þeim sigri í nýsköpunarkeppni


Anna Valgerður Árnadóttir og Oliwia Huba eru eldklárar og hugmyndaríkir nemendur úr 6 BS í Brekkubæjarskóla á Akranesi. Þær gerðu sér lítið fyrir og stóðu uppi sem sigurvegarar í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2019.

Anna Valgerður og Oliwia skiluðu af sér tæki sem kallast Hafragrautaruppáhellari. Hugvit þeirra skilaði þeim fartölvu, mynd með Forseta Íslands og spjalli við ráðherra menntamála. Vel gert og til hamingju.

Úrslit keppninnar voru tilkynnt með viðhöfn í Háskólanum í Reykjavík., Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra ávörpuðu hugvitsfólkið og ahentu verðlaun í ýmsum flokkum.

Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) er keppni í nýsköpun fyrir 5. – 7. bekk grunnskólanna en keppnin var haldin í fyrsta skipti árið 1991 og er nú haldin í 28. sinn.

Yfir 1200 hugmyndir, frá 38 skólum víðs vegar af landinu, bárust að þessu sinni. Dómnefnd valdi 26 hugmyndir, sem 40 nemendur standa að baki,  í vinnusmiðjuna, þ.e. úrslitakeppni NKG 2018, sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík.

Þessir nemendur komust í gegnum strangt matsferli þar sem uppfinningar þeirra voru metnar með tilliti til hagnýti, nýnæmi og markaðshæfi.

Úrslitin voru eftirfarandi 

1. sæti

Þetta er græjan, Hafragrautaruppáhellari.

Anna Valgerður Árnadóttir og Oliwia Huba með Hafragrautaruppáhellara. Þær koma frá Brekkubæjarskóla á Akranesi. 

2. sæti

Rakel Sara Þórisdóttir með Hækka-Lækkari, snagi sem hægt er að hækka og lækka fyrir börn) Rakel kemur frá Seljaskóla í Reykjavík.

3. sæti

Ásgeir Máni Ragnarsson með Hólfið sem er hólfaskiptur brúsi, hann kemur frá Brúarásskóla í Fljótsdalshéraði. 

Forritunarbikarinnhlutu Ingunn Lilja Arnórsdóttir og Kamilla Rós Gústafsdóttir með stærðfræðitímaappið. Eftir ákveðinn langan tíma læsist sími hjá barninu og þarf barnið að leysa nokkur stærðfræðidæmi við hæfi, til að geta haldið áfram í símanum. Þær koma frá Flúðaskóla, Flúðum. 

Hönnunarbikarinn hlaut Hera Sjöfn Bjartsdóttir með Tannþráðar-tannburstann, en með honum er tannþráður áfastur á tannburstanum. Hún kemur frá Hofsstaðaskóla í Garðabæ

Samfélagsbikarinn hlutuÍvar Logi Jóhannsson og Kristófer Bjarki Hafþórsson með Hjólastól sem hægt er að halla bakinu á. Þeir koma frá Egilsstaðaskóla. 

Tæknibikarinn hlutu þær Hekla Karlsdóttir Roth og Helena Huld Hafsteinsdóttir með Bílastopparann, sem á að stuðla að umferðaöryggi. Þær koma frá Vesturbæjarskóla í Reykjavík. 

Umhverfisbikarinnhlaut Karitas Ingvadóttir fyrir hugmynd sína um Áfyllinginn Áfylliflöskur til að kaupa sjampó og hárnæringu í búðum  Næringaskammtari / Sjampóskammtari.Þetta er umhverfisvænt og miðar að því að minnka plastnotkun. Karitas kemur frá Vesturbæjarskóla í Reykjavík.

Í viðurkenningaskyni fyrir að komast í úrslit fengu allir nemendur gjafabréf í Háskóla unga fólksins 2019, gjafabréf frá IKEA eða gjafabréf í FabLab smiðju.

ELKO á Íslandi stóð síðan straum af veglegum vinningum fyrir aðalverðlaunin og voru þau ekki af verri endanum. Öll önnur sæti en það fyrsta fengu glæsilegan Samsung Galaxy síma að verðmæti 40.000 kr.

Í fyrsta sæti voru verðlaunin Hp fartölva að verðmæti 140 þús.