30 ára bið á enda – Jóhann Þór náði loksins að miða rétt


„Ég byrjaði í golfi og hef verið félagi í Leyni frá því um Verslunarmannahelgina árið 1989. Það tók mig bara 30 ár að miða loksins rétt og slá draumahöggið,“ sagði Jóhann Þór Sigurðsson kylfingur léttur í bragði í dag við Skagafréttir á Garðavelli.

Jóhann Þór fór holu í höggi á 8. braut Garðavallar s.l. þriðjudag . Hann notaði 7-járnið og miðið var gott eins og niðurstaðan gefur til kynna.

Reynir Sigurbjörnsson, eigandi Bílvers á Akranesi, var með Jóhanni Þór í ráshóp þegar draumahöggið var slegið.

Til að setja afrek Jóhanns Þórs í samhengi þá tók það hann 10,957 daga að slá draumahöggið eða 262,968 klukkustundir.