Útvarp Akraness fékk menningarverðlaun Akraness 2019


Menningarverðlaun Akraness 2019 hlýtur Útvarp Akranes sem Sundfélag Akranes starfrækir. Frá þessu var greint í dag við upphaf menningarhátíðarinnar Vökudaga.

Stjórn Sundfélags Akraness fékk verðlaunagrip eftir listakonuna Kolbrúnu Kjarval.

Sundfélag Akraness hélt upp á 30 ára afmæli Útvarps Akraness í fyrra sem er frábær árangur. Verkefnið hófst sem fjáröflunarleið fyrir félagið en er í dag ómissandi hluti af aðventu Akurnesinga nær og fjær.

Útvarpsnefnd Sundfélags Akraness skipuleggur árlega frábæra, fjölbreytta og áhugaverða dagskrá og fær til liðs við sig fólk víða úr mannlífinu sem gerir útvarpið skemmtilegt og áhugavert fyrir mjög marga.

Menningaverðlaun Akraneskaupstaðar eru veitt ár hvert í tengslum við Vökudaga og voru í dag veitt í þrettánda sinn við setningu hátíðarinnar. Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingum eða félagasamtökum sem hafa skarað fram úr á einhverju sviði menningar hér í bæjarfélaginu.