Þrír leikmenn úr röðum ÍA hafa verið valdir í æfingahópa fyrir yngri landslið Íslands í körfuknattleik. Hóparnir æfa í lok desember og yfir hátíðirnar sem eru framundan.
Aron Elvar Dagsson er í æfingahóp fyrir U16 drengja en hann hefur áður fengið tækifæri með landsliði Íslands í sínum aldursflokki.
Styrmir Jónasson og Þórður Freyr Jónsson voru báðir valdir í æfingaghóp fyrir U15 drengja.
Tvíburabræðurnir Jóel og Júlíus Duranona voru líka í úrtaks æfingum í sumar en voru ekki valdir í æfingahóp að þessu sinni, þeir halda áfram að vinna í sínum leik og ætla sér að gera harða atlögu að því að vinna sér sæti í þessum hóp þó seinna verði.
Það er ljóst að uppbyggingarstarf ÍA er að skila af sér leikmönnum í fremstu röð á landsvísu í sínum aldursflokki.
ÍA er með lið í fremstu röð í þessum aldursflokku, elstu bekkjum grunnskólans, og hafa margir leikmenn þessara liða vakið athygli fyrir frammistöðu sína.
Aron Elvar er sonur Dags Þórissonar og Hjördísar Daggar Grímarsdóttur, en Dagur var burðarás í liði ÍA á árum áður í körfunni, og lék með yngri landsliðum Íslands og á einnig að baki A-landsleiki.
Styrmir er sonur Jónasar H. Ottóssonar, lögreglumanns, og Ingunnar Sveinsdóttur. Styrmir á ekki langt að sækja körfuboltahæfileikana því náfrændi hans og móðurbróðir, Vésteinn Sveinsson, var lengi í fremstu röð á landsvísu í körfuboltanum, hjá ÍA, FSU og síðar í bandaríska háskólakörfuboltanum.
Þórður er sonur Jóns Þórs Þórðarsonar og Ingibjargar Hörpu Ólafsdóttur. Jón Þór var í fremstu röð í körfuboltanum á Akranesi um langa hríð. Jón Þór hefur rifið upp körfuboltastarfið á ný á undanförnum árum sem þjálfari og formaður deildarinnar.