Vilhjálmur ætlar að berjast fyrir tilverurétti Elkem – þungur róður framundan


Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hefur miklar áhyggjur af stöðu mála hjá Járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga.

Í pistli sem Vilhjálmur skrifar á heimasíðu VLFA segir formaðurinn m.a. að viðsjárverðir tímar eru framundan hjá fyrirtækinu vegna gríðarlegrar hækkunar Landsvirkjunnar á raforkuverði til Elkem.

Pistil Vilhjálms má lesa í heild sinni með því að smella hér.

Forstjóri Elkem, Einar Þorsteinsson, hefur sagt að fyrirtækið treystir sér ekki til að gera til lengri kjarasamning en í 12 mánuði vegna þeirra óvissu sem er uppi eftir að raforkukostnaður fyrirtækisins snarhækkaði.

Raforkuverð hefur hækkað um 43% hjá Elkem, en fyrirtækið greiðir nú um 4,3 milljarða kr. í rafmagnskostnað á ársgrundvelli.

Vilhjálmur segir einnig frá því að launakostnaður Elkem sé nú um 2,2 milljarðar kr. á ári, og nýleg hækkun á rafmagnskostnaði nemi 1,3 milljörðum kr. eða sem nemur 59% af öllum launakostnaði Elkem.

„Það er ígildi þess að Elkem myndi ráða um 118 nýja starfsmenn og hafa ekkert fyrir þá að gera annað en að greiða þeim laun. Meðaltalshagnaður Elkem á árunum 1998-2018 er 789 milljónir kr. á ári og með hækkun raforkuverðs upp á 1,3 milljarða kr. er framlegð fyrirtækisins þurrkuð upp. Verkalýðsfélag Akraness ætlar að berjast fyrir því að þetta fyrirtæki fái að halda áfram rekstri hér á landi og haldi áfram að vera okkur Akurnesingum jafnmikilvægt og það hefur verið síðustu 40 ár.“

Fyrirtækið hefur nú þegar gripið til mjög mikilla hagræðingaraðgerða til að mæta þessum aukna rekstrarkostnaði vegna hækkunar á raforku. Elkem ætlar að grípa til róttækra mótvægisaðgerða t.d. með því að lækka launakostnað um 322 milljónir á ári sem er lækkun um rúm 15%. En það verður m.a. gert með því að fækka starfsmönnum um 15%.

Pistil Vilhjálms má lesa í heild sinni með því að smella hér.