Bókasafnið opnar fyrr – nýtt verkefni „Opnun án þjónustu“ hófst í dag


„Með rýmri opnun bjóðum við árrisula gestir velkomna í safnið að skoða bækur, tímarit og dagblöð. Fá sér kaffisopa, nota þráðlaust net, komast í tölvu, taka bækur að láni í sjálfsafgreiðslu og skila. Í safninu er ein sjálfsafgreiðsluvél og einnig leitartölva þar sem gestir geta flett upp safnkosti,“ segir í tilkynningu frá Bókasafni Akraness sem mun bjóða upp á nýbreytni á nýju ári.

Bókasafnið verður opnað kl. 10.00 alla virka daga en formleg opnun á þjónustu safnsins hefst síðan kl. 12.00. Opnun án þjónustu er nafnið á verkefninu.

Fyrirkomulag af þessu tagi, Opnun án þjónustu, þekkist víða annars staðar á Norðurlöndum og eins hefur það reynst vel í Bókasafni Kópavogs, Bókasafni Mosfellsbæjar og Amtsbókasafninu á Akureyri.


Á síðasta ári var starfsemi safnsins endurskoðuð og hugað að framtíð bókasafnsins. Efnt var til vinnufundar undir stjórn sérfræðinga frá Advanina með starfsfólki bókasafnsins, menningar- og safnanefnd, forstöðumanni menningar- og safnanefndar og fulltrúum íbúa á Akranesi. Unnið var út frá hugmyndafræði sem nefnist Design Thinking, en þar gegna notendur lykilhlutverki, hvort sem það er í þróun þjónustu eða innviða.

Eitt af því sem kom fram á vinnufundinum með íbúum var að safnið mætti opna fyrr að deginum og almennt mætti afgreiðslutíminn vera mun rýmri en hann er í dag.

Rýmri opnun er ekki að öllu leyti nýlunda á Bókasafni Akraness, því allt frá því að safnið tók til starfa á Dalbraut 1 árið 2009, hefur safnið verið opið að morgni fyrir ýmsa hópa, svo sem frá leikskólum bæjarins og grunnskólum. Foreldramorgnar eru á fimmtudögum og greiningarfundir Ljósmyndasafnsins eru á miðvikudögum.

Svöfusalur (lessalur) opnar áfram kl. 8:00 virka daga og er opinn til kl. 18:00. Gegnið inn að norðanverðu. Allir námsmenn hafa aðgang að Svöfusal meðan safnið er opið.

Auk þess geta námsmenn sótt um aðgangskort og haft ótakmarkað aðgengi að Svöfusal. Fjöldatakmörkun er á þessu aðgengi.

Fyrirkomulag af þessu tagi, Opnun án þjónustu, þekkist víða annars staðar á Norðurlöndum og eins hefur það reynst vel í Bókasafni Kópavogs, Bókasafni Mosfellsbæjar og Amtsbókasafninu á Akureyri.

Vakin er athygli á þessari breytingu, sem hefur þegar tekið gildi og er fólk hvatt til að kynna sér fjölbreytta starfsemi bókasafnsins. Við viljum einnig minna á föstu viðburðina okkar sem eru eftirfarandi:

Prjónakaffi á mánudögum kl. 14
Heklhópur annan hvern miðvikudag kl.15
Foreldramorgnar á fimmtudögum kl. 10
Karlaspjall á föstudögum kl. 12
Fjölskyldudagar á laugardögum