Kaka ársins 2020 í aðalhlutverki í Kallabakarí í dag og næstu daga


Kaka ársins 2020 verður í aðalhlutverki í Kallabakarí á Akranesi líkt og í öðrum bakaraíum á landsvísu. Það er opið í Kallabakarí þessa stundina þrátt fyrir hvassviðrið sem nú gengur yfir Akranes.

Sigurður Alfreð Ingvarsson bakarameistari er höfundur uppskriftarinnar á köku ársins 2020. Sigurður starfar í bakaríi Jóa Fel í Reykjavík.

Það er Landssamband bakarameistara sem árlega heldur utan um keppnina um köku ársins sem að þessu sinni var haldin í samstarfi við Nóa Siríus og eina krafan sem gerð var um kökuna var að hún innihéldi Nóa tromp.

Kaka ársins er sannkölluð lagskipt lystisemdarbomba og lýsir Sigurður kökunni með þessum hætti:

„Botninn er frönsk súkkulaðiterta. Næst kemur Trompið til sögunnar í lakkrís- og marsípanbitum. Því næst er lag af dýrindis saltkaramellusúkkulaðimús með Odense-marsipanlagi ofan á og svo aftur saltkaramellumús. Þar á eftir kemur lag af möndlumarengs með enn meiri mús. Loks er svo öll kakan hjúpuð með saltkaramelluganache.“

Í dag tók Skagakonan Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir Iðnaðarráðherra á móti fyrstu kökunni við hátíðlega stund í atvinnuvegaráðuneytinu við Skúlagötu 4.

Nánar má lesa um köku ársins 2020 hér.