Fimm ný smit á Vesturlandi – Víðir hefur áhyggjur af þróun mála á landsvísu


Fimm ný Covid-19 smit voru greind á Vesturlandi í gær samkvæmt tölfræði á vefnum covid.is. Á landsvísu greindust 38 ný Covid-19 smit.

Alls eru 18 smit á Vesturlandi og eru þeir einstaklingar í einangrun, alls eru 80 í sóttkví á Vesturlandi. Á landinu öllu eru rúmlega 1400 í sóttkví og 382 í einangrun.

Nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur er nú hvergi hærra á Norðurlöndum en á Íslandi eða 113,2 smit.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra segir við RÚV að tölurnar séu vonbrigði. Þau hafi verið að vonast til að sjá lægri tölur um helgina.

„Við höfum verulegar áhyggjur. Þegar við fórum að hvetja almenning til að draga úr ferðum sínum og vinna heima að það myndi hafa meiri áhrif. Þessi helgi átti að vera ákveðnar krossgötur. Þannig að tölur morgunsins voru vonbrigði,“ segir Víðir.