Prestar og organisti Akraneskirkju hafa tekið höndum saman í októbermánuði og flutt helgistundir á sunnudögum. Helgistundirnar hafa verið teknar upp fyrirfram og þær birtar á netmiðlum og samfélagsmiðlum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskirkju.
Skagamaðurinn Ingþór Bergmann Þórahallsson hefur séð um upptökur og hefur honum farist það afar vel úr hendi enda hefur hljóð- og myndvinnsla verið algerlega til fyrirmyndar.
Þessar stundir hafa vakið mikla athygli og ekki síst fyrir það að prestarnir, þau Þráinn Haraldsson, Jónína Ólafsdóttir og Þóra Börg Sigurðardóttir hafa séð um sönginn.
Kórstarf í prestakallinu hefur legið niðri í október líkt og opið helgihald. En þríeykið hefur leyst þetta af stakri snilld og notið liðsinnis Sveins Arnars organista auk annarra hljóðfæraleikara.
Sunnudaginn 1. nóvember birtir Akraneskirkja helgistund kl. 20 en þann dag er Allra heilagra messa og á þeim degi er hefð fyrir því að látinna sé minnst í kirkjum landsins.
Stundin verður birt á vef Akraneskirkju sem og á facebook síðu kirkjunnar.
Allar helgistundirnar má síðan nálgast á heimasíðunni, akraneskirkja.is
Í meðfylgjandi myndbandi má heyra og sjá sr. Jónínu Ólafsdóttur og Þóru Björgu Sigurðardóttur flytja sálminn Ó, faðir gjör mig lítið ljós. Með þeim spila þeir Arnþór Snær Guðjónsson á gítar og Sveinn Arnar á hljómborð. Frábær flutningur á þessum þekkta og fallega sálmi.