Mikil umræða hefur verið um húsnæði Fjöliðjunnar við Dalbraut 10. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti nýverið að fara eftir sviðsmynd 1 í lokaskýrslu starfshóps um framtíðarhúsnæði Fjöliðjunnar.
Sviðsmynd 1 gengur út á að núverandi húsnæði við Dalbraut 10, sem skemmdist mikið í eldi á síðasta ári, verði gert upp með nýrri viðbyggingu.
Á fundi bæjarstjórnar nýverið kom það fram í bókun minnihlutans að fyrir bruna Fjöliðjunnar hafi komið í ljós alvarlegur mygluvandi í húsnæðinu sem ekki hafði verið komist fyrir.
Ólafur Adolfsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í skipulags – og umhverfisráði, fór fram á að Guðmundur Páll Jónsson forstöðumaður Fjöliðjunnar færi yfir ástæður þess að ráðist var í frumskoðun á loftgæðum og rakavandamálum í húsnæði Dalbrautar 10 í mars 2019. Guðmundur Páll fór yfir helstu niðurstöður skoðunar sem var framkvæmt af fyrirtækinu Mannvit.
Skipulags – og umhverfissvið fól sviðstjóranum Sigurði Páli Harðarsyni, að láta framkvæma ítarlega ástandsskoðun á húsinu við Dalbraut 10, af þar til bærum aðilum. Þessi ítarlega skoðun verður síðan nýtt til að meta raunhæfni og hagkvæmni á enduruppbyggingu hússins m.t.t. þeirra hugmynda sem eru um framtíðaruppbyggingu Fjöliðjunnar á lóðinni við Dalbraut 10.