Nýtt fimleikahús sem tekið var í notkun við íþróttahúsið við Vesturgötu í haust hefur gjörbreytt allri aðstöðu fyrir iðkendur og þjálfara félagsins. Fimleikafélag Akraness er í dag fjölmennasta íþróttafélagið á Akranesi. Þar er áherslan lögð á öflugt barnastarf og er aldursdreifing iðkenda breið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
„Yngstu börnin hjá okkur eru í íþróttaskólanum og eru á aldrinum 1-4 ára. Eiginlegt fimleikastarf hefst við 5 ára aldur og eru elstu iðkendur okkar fæddir 1997. Í vetur erum við með rúmlega 520 iðkendur.
Í september buðum við upp á fría strákafimleika og gafst það vel. Parkour er einnig mjög vinsælt hjá okkur. Í vetur buðum við í fyrsta skiptið upp á æfingar fyrir iðkendur sem vilja ekki keppa en vilja vera í fimleikum.
Fimleikafélagið er í mikilli uppbyggingu en til þess að það sé mögulegt er mikilvægt að hafa góða þjálfara sem halda vel utan um iðkendur. Þjálfarar okkar fara allir í gegnum þjálfaranámskeið á vegum Fimleikasambands Íslands. Við erum einnig með aðstoðarþjálfara sem njóta leiðsagnar þeirra sem eru eldri og reyndari, þannig byggjum við upp gott þjálfarateymi.
Það er skemmtilegt í fimleikum og mikið líf og fjör á æfingum. Dans og tónlist, hopp og snúningar er stór þáttur á öllum æfingum – og lýsir vel þeirri gleði sem er til staðar hjá iðkendum.
Það ríkir tilhlökkun hjá okkur þegar „Covid-ástandið“ verður liðið. Þá getum við haldið úti eðlilega starfsemi og boðið bæjarbúum til að skoða fallega fimleikahús Skagamanna,“ segir í tilkynningu frá Fimleikafélagi Akraness.