Verslunin Nína bætir við þjónustu sína – ninaverslun.is fer í loftið

„Verslunin Nína við Kirkjubraut verður áfram hjartað í rekstrinum en vefverslun er framtíðin. Við viljum með þessu skrefi taka þátt í þeirri þróun sem hefur átt sér stað á þessu sviði,“ segir Heimir Jónasson við Skagafréttir en frá og með laugardeginum 12. desember geta viðskiptavinir Nínu keypt vörur á netinu á ninaverslun.is. 

Nína á sér tæplega 40 ára sögu í verslunarflóru Akraness en Heimir og Helga Dís Daníelsdóttir eiginkona hans keyptu Nínu þann 1. september árið 2007 og tóku þar með við keflinu af foreldrum hennar. Það er því mikil reynsla til staðar hjá þeim Helgu Dís og Heimi sem ætla sér að fara hægt en örugglega inn á þetta nýja svið. 

„Þetta er vissulega spennandi verkefni en við förum að venju varlega af stað. Við ætlum að taka þetta í nokkrum skrefum og fikra okkur áfram smátt og smátt.  Vöruúrvalið í ninaverslun.is verður töluvert en ekki eins mikið og búðinni hjá okkur. Við höfum notað samfélagsmiðla á borð við Facebook og Instagram til að selja vörur og við erum því með einhverja reynslu á þessu sviði.“ 

Heimir segir að það hafi ekki tekið langan tíma að koma upp vefversluninni frá því að ákvörðunin var tekin. 

„Við fengum til liðs við okkur aðila sem þaulreyndur á þessu sviði. Við hlökkum til að sjá hvernig þetta fer af stað og framundan er skemmtilegasti tími ársins,“ segir Heimir.

Eins og áður segir keyptu Helga Dís og Heimir verslunina af foreldrum Helgu, Nínu Áslaugu Stefánsdóttur og Daníel Daníelssyni – sem opnuðu Nínu þann 20. ágúst árið 1982 eða fyrir 38 árum.  Á þessum rúmlega 38 árum hefur „litla fatabúðin“ vaxið mikið og er í dag eitt helsta og elsta kennileiti Akraness þegar kemur að verslun og þjónustu.