Kraftlyftingamaður ársins – Kristín Þórhallsdóttir

Umfjöllun um íþróttafólkið sem kemur til greina í kjörinu á íþróttamanni Akraness 2021.

Þú getur kosið með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 21. til og með 29 desember.

Kristín Þórhallsdóttir hefur á árinu stimplað sig vel og vandlega inn á styrkleikalista Íslands í klassískum kraftlyftingum, hún setti 17 ný Íslandsmet og eftir árið standa 7 af þeim ennþá.

Árið var erfitt fyrir alla en hún náði þó að halda dampi í æfingum allt árið og uppskar hún eins og hún sáði og bætti sig um 72,5 kg í samanlögðu.

Á árinu náði hún því magnaða afreki að verða fyrst íslenskra kvenna til að taka yfir 500 kg í samanlögðu og meira að segja gerði hún enn betur og tók 510 kg.

Kristín er stigahæsta klassíska kraftlyftingakona Íslands frá upphafi!

Árangur hennar er á algjörum heimsmælikvarða. Kristín er frábær fyrirmynd fyrir unga og aldna. Hún er vel að þessari tilnefningu komin.

Helstu afrek Kristínar á Íslandi á árinu: Setti 17 Íslandsmet á árinu, 7 þeirra standa í dag. Á öll Íslandsmetin í -84 kg flokki kvenna í klassískum kraftlyftingum.

Hún varð Íslandsmeistari í -84 kg flokki annað árið í röð í klassíkum kraftlyftingum. Varð Íslandsmeistari yfir allt á stigum á Íslandsmóti í klassíkum lyftingum. Náði hæsta samanlagða árangri bæði í kílóum og stigum sem íslensk kona hefur náð í klassíkum kraftlyftingum. Fyrst kvenna á Íslandi að taka 200 kg í klassískri hnébeygju. Á þyngstu hnébeygju sem íslensk kona hefur tekið í klassískri hnébeygju.

Helstu afrek Kristínar erlendis á árinu:

Efst á styrkleikalista Evrópu i klassískum kraftlyftingum í -84kg flokki kvenna.

Hvernig stendur Kristín sig á landsvísu?

Kristín er stigahæst allra kvenna og karla á Íslandi í klassískum kraftlyftingum óháð aldri og þyngdarflokki.