Uppskeruhátíð Fimleikasambands Íslands fyrir árið 2020 fór fram nýverið – og var samkoman með öðru sniði en venjulega vegna samkomutakmarkana.
Veittar voru ýmsar viðurkenningar samkvæmt venju og þjálfari ársins kemur úr röðum Fimleikafélags Akraness, ÍA.
Nánar á vef Fimleiksambandsins.
Brynjar Sigurðsson er þjálfari ársins hjá Fimleikasambandi Íslands 2020.
Brynjar hefur starfað um árabil fyrir Fimleikafélag Akraness, ÍA, samhliða starfi sínu sem íþróttakennari við Brekkubæjarskóla á Akranesi.
Brynjar verður fimmtugur þann 20. maí á þessu ári. Hann lék um margra ára skeið körfuknattleik með Njarðvík og ÍA – en á undanförnum tveimur áratugum hefur fimleikaþjálfun átt hug hans.
Í umsögn um þjálfara ársins á vef Fimleikasambandsins segir:
Þjálfari ársins er Brynjar Sigurðsson. Hann vinnur mjög óeigingjarnt starf í þágu fimleikafélagsins á Akranesi, er alltaf boðin og búin til að hjálpa, fyrstur á svæðið ef eitthvað er um að vera og síðastur heim. Hann er sterkur leiðtogi og burðarás í þjálfarateymi félagsins. Hann hefur unnið hjá félaginu í bráðum 20 ár og ólíklegt er að fimleikafélagið væri jafn öflugt í dag eins og raun ber vitni, ef ekki væri fyrir eljusemi og ósérhlífni Brynjars. Við óskum Brynjari innilega til hamingju með titilinn.