Silkimjúkur Geirmundur, England og þumall koma við sögu í Glæsibæjarlaxinum

Valgeir Sigurðsson er meistarakokkur vikunnar í fréttaflokknum „Heilseflandi samfélag“ þar sem að hollusta og bragðgæði eru höfð að leiðarljósi. Um er að ræða nýlegan fréttaflokk og er markmiðið að safna saman bragðgóðum, einföldum og hollum uppskriftum. Með tíð og tíma verður vonandi til staðar sarpur af góðum hugmyndum um holla og einfalda rétti.

Valgeir tók áskorun frá stjúpföður sínum, Guðmundi Páli Jónssyni. Marella Steinsdóttir, eiginkona Valgeirs, á eflaust stóran þátt í þessari uppskrift ásamt Valgeiri. Það er margt áhugavert við þessa hollu uppskrift – þar sem að Geirmundur Valtýsson sveiflukóngur. þumlar og England koma við sögu. En við skulum gefa Valgeiri orðið.

„Við hjónin bjuggum lengi vel í Englandi og neyddumst til að hætta að stóla á mæður okkar til að elda fyrir okkur. Þessi uppskrift er ein af mörgum sem við prófuðum okkur bara áfram með en sú eina sem var æt. Hún er afskaplega einföld og fljótleg en gríðarlega holl og góð. Við eldum þessa reglulega á okkar heimili. Nafnið kemur frá íbúðinni okkar í London sem við kölluðum Glæsibæ þar sem hún var sérlega glæsileg,“ segir Valgeir í samtali við Skagafréttir.


Lax:

Laxaflak: 850g cirka
Ferskt engifer: 1 þumall
Ferskt koríander: 1 lúkufylli
Hvítlaukur: 1 geiri
Sojasósa: 2 msk
Sætkartöflumús:
Sæt kartafla: 1 stórt stk.
Valhnetukjarnar: Góður slatti
Haframjólk: Eftir smekk.


Aðferð:

*Hitið ofninn í 200 gráður.

*Afhýðið kartöfluna, skerið í smærri einingar og sjóðið í vatni í 15 mínútur eða þar til hún er orðin vel mjúk í gegn.

*Saxið engifer, koríander og hvítlauk smátt og hrærið létt saman við sojasósuna. Mér finnst gott að mæla engiferið svo það sé svipað á stærð og þumalfingurinn á mér. Ef þið hafið misst þumlana t.d. í vinnuslysi væri ráðlegt að fá lánaðan þumal af einhverjum öðrum til að mæla.

*Smyrjið eldfast mót með góðri olíu og leggið laxaflakið í mótið. Smyrjið sojablöndunni jafnt yfir flakið. Látið roðið snúa niður ef flakið er ekki roðflett. Bakið laxinn í 200 gráðu heitum ofninum í 10 mínútur.

*Hellið vatninu frá kartöflunni og stappið vel með haframjólk þar til áferðin er flauelismjúk eins og röddin í Geirmundi Valtýs. Ég nota haframjólk þar sem það er mjólkurprótein ofnæmispési á heimilinu. Ykkur er að sjálfsögðu frjálst að nota kúamjólk og jafnvel smjör ef ykkur er ekki annt um almenna vellíðan.

*Myljið valhnetukjarna og hrærið út í kartöflumúsina. Þetta er aðallega gert til að bæta smá „crunch-i“ í áferðina en gefur skemtilegt bragð líka.

*Saltið og piprið eftir smekk og berið fram með góðu salati.

Valgeir fer ekki langt út fyrir þægindarammann þegar hann tilnefnir listakokkinn Steindóru Steinsdóttur, mágkonu sína, og skorar hann á „Dódó“ að taka við keflinu og kenna Skagamönnum nær og fjær að galdra eitthvað frábært fram.

„Það er næsta víst að sá réttur verður verulega „djúsí“. Dódó er afbragðsgóður „kokkur“. Það er mesta furða og eiginlega eitt af undrum veraldar að eiginmaður hennar, Kiddi Keflavíkurdeli, (Kristinn Guðbrandsson) sé ekki löngu orðinn hnöttóttur,“ segir Valgeir að lokum.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/11/16/forrettindi-ad-eiga-alltaf-fisk-i-frystikistunni-inga-dora-skorar-a-gudmund-pal/
http://localhost:8888/skagafrettir/2020/10/02/hollur-fiskrettur-astthors-nytur-vinsaelda-a-heimilinu-hollasta-matvara-sem-vol-er-a/
http://localhost:8888/skagafrettir/2020/09/04/kjuklinga-pad-krapow-er-vinsaell-rettur-a-heimili-saevars-freys/