Nemendur við Grundaskóla á Akranesi fengu á dögunum afhenta viðurkenningu vegna áskorunar sem skólinn tók þátt í í Hreyfiviku UMFÍ og Kristals.
Um var að ræða brenniboltaáskorun sem Grundaskóli tók þátt í vorið 2020. Margra mánaða töf varð á verðlaunaafhendingunni – af ýmsum ástæðum, svo sem Covid-19 og þeim takmörkunum sem fylgdu í kjölfarið.
Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, afhenti nemendum Grundaskóla 50.000 kr. ávísun. Sú krafa er á verðlaununum er að vinningshafar þurfa að láta hana af hendi til góðra verkefna.
Sigurður Arnar Sigurðsson – skólastjóri Grundaskóla, segir í viðtali á vef UMFÍ að ÍA muni njóta góðs af verðlaununum. Markmiðið er að finna leið til að bjóða upp á íþróttir án aðgreiningar svo allir geti verið með í íþróttum.
ÍA er eitt 28 sambandsaðila UMFÍ. Sambandsaðilar UMFÍ skiptast í 21 íþróttahérað og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ með rúmlega 270 þúsund félagsmenn.