Matvælaplast úr sjávarþara – spennandi verkefni í vinnslu á Breið nýsköpunarsetri

Sigríður Kristinsdóttir vinnur þessa dagana að spennandi verkefni í Breið nýsköpunarsetri á Akranesi.

Sigríður, sem er menntuð í sjávarútvegsfræðum segir í viðtali sem birtist í Bændablaðinu að markmið verkefnisins sé að þróa framleiðshæfar matvælapakkningar úr brúnþörungartegundum.

Þróunarverkefni hennar, „matvælaplast úr þörungum“, fékk atvinnu- og nýsköpunarstyrk úr Uppbyggingarsjóði sóknaráætlunar Vesturlands.

Matvælaplast sem unnið er með slíkum hætti á að brotna auðveldlega niður í náttúrunni og getur leyst af hólmi venjulegt plas sem brotnar ekki niður í náttúrunni.

Í viðtalinu segir Sigríður að verkefnið sé viðamikið og gerir hún ráð fyrir því að það muni taka nokkur ár þróa vöru í fullnægjandi gæðum.

Hún leitar að samstarfsaðilum úr matvælaiðnaði og plastvinnslu til að aðstoða við vöruþróun verkefnisins.

Nánar á vef Bændablaðsins.

Breið nýsköpunarsetur var sett á laggirnar í júlí 2020. Því er ætlað að efla atvinnutækifæri, nýsköpun og skapandi greinar á svæðinu og þá er gert ráð fyrir nýrri íbúabyggð á Breið. Brim og Akraneskaupstaður eiga meirihluta lóða og fasteigna á Breið þar sem liggja einstök tækifæri til uppbyggingar.

Markmið aðila er að skapa umhverfi þar sem miðlun ólíkrar þekkingar á sviði tækni, lýðheilsu og umhverfismála muni stuðla að rannsóknum og nýsköpun í fremstu röð sem muni leysa úr ólíkum áskorunum og vandamálum sem að heiminum steðja.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/07/02/fjolbreyttar-aherslur-i-nyju-throunarsetri-a-breid-a-akranesi/