Skagamennirnir Arnór Sigurðsson og Ísak Bergmann Jóhannesson komu báðir við sögu í 4-1 sigri Íslands í gær gegn Liechtenstein í undankeppni HM 2022.
Leikurinn fór fram í Liechtenstein og var þetta þriðji leikur Íslands í riðlinum og fyrsti sigur Íslands í keppninni.
Þetta var í annað sinn sem hinn 18 ára gamli Ísak Bergmann fær tækifæri með A-landsliðinu en Arnór, sem 21 árs, hefur leikið 14 landsleiki.
Ísak er fæddur 23. mars árið 2003 á Englandi en foreldrar hans eru Jóhannes Karl Guðjónsson og Jófríður María Guðlaugsdóttir. Arnór Sigurðsson er fæddur á Akranesi 15. maí árið 1999 en foreldrar hans eru Sigurður Þór Sigursteinsson og Margrét Ákadóttir.
Ísak Bergmann er þriðji yngsti leikmaður úr röðum ÍA sem leikur A-landsleik fyrir Ísland í knattspyrnu – og hann er 64 leikmaðurinn úr karlaliði ÍA sem fær tækifæri með A-landsliðinu. Alls hafa 19 konur úr röðum ÍA leikið með A-landsliði Íslands og er Margrét Ákadóttir, móðir Arnórs, ein þeirra. ÍA hefur átt alls 83 leikmenn í A-landsliðinu frá upphafi.
Sigurður Jónsson, er yngsti leikmaðurinn úr röðum ÍA sem leikur með A-landsliði karla en hann var tæplega 17 ára þegar hann lék sinn fyrsta leik árið 1983. Næstur í röðinni er Eyleifur Hafsteinsson sem var einnig á 18. ári líkt og Ísak Bergmann þegar hann lék sinn fyrsta A-landsleik.
Ísak Bergmann er þriðji ættliðurinn sem leikur með A-landsliði Íslands en faðir hans lék 31 leik og afi Ísaks, Guðjón Þórðarson, lék einn A-landsleik, en varð síðar þjálfari A-landsliðs karla.
Það eru fjölmargir úr nánustu ætt Ísaks sem hafa leikið með A-landsliðinu og ÍA. Föðurbræður hans, Bjarni Guðjónsson, Þórður Guðjónsson og Björn Bergmann Sigurðarson hafa allir leikið með A-landsliðinu og skorað líkt og Jóhannes Karl. Móðursystir Ísaks, Magnea Guðlaugsdóttir, lék einnig með A-landsliði Íslands í kvennaflokki.
Jón Gunnlaugsson, sagnaritari og fyrrum leikmaður ÍA og landsliðsins, heldur utan um þessar upplýsingar sem þessi frétt er byggð á.