„Stokkið fyrir Svenna“ – myndasyrpa frá Gísla Rakara

Um 180 einstaklingar tóku þátt í því að stökkva í Akraneshöfnina í dag í áheitaverkefninu „Stokkið fyrir Svenna“.

Um er að ræða fjáröflunarverkefni þar sem að safna á fyrir sérsmíðuðu reiðhjóli fyrir Skagamanninn Sveinbjörn Reyr Haltason. Árgangur 1971 stóð að skipulagningu viðburðarins en Svenni er fæddur á því ári.

Sveinbjörn Reyr slasaðist fyrir rúmlega ári síðan í motorkrossbrautinni hér við Akranes og brotnaði sjötti hryggjarliðurinn í því slysi. Hann er lamaður fyrir neðan brjóstkassa.

Markmið dagsins var að safna fyrir reiðhjólinu sem kostar um þrjár milljónir kr. og samkvæmt heimildum Skagafrétta hefur söfnunin gengið gríðarlega vel – og allar líkur á því að markmiðinu verði náð á allra næstu dögum.

Þórdís Kolbrún R Gylfadóttir, ráðherrra, Hallgrímur Ólafsson leikari og Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness tóku fyrstu stökkin.

Gísli J. Guðmundsson, sem er betur þekktur sem Gísli Rakari, tók þessar myndir við Akraneshöfnina í dag.