Covid-19 takmörkunum aflétt á Íslandi frá og með morgundeginum


Á morgun, laugardaginn 26. júní 2021, verða allar takmarkanir á samkomuhaldi vegna Covid-19 farsóttar felldar úr gildi. Ísland er þar með fyrsta Norðurlandaþjóðin til þess að fella niður allar takmarkanir innanlands.

Á undanförnum 15 mánuðum hafa margskonar takmarkanir verið í gildi en frá og með morgundeginum verða allar slíkar takmarkanir felldar úr gildi. Þar telst með fjöldatakmarkanir, opnunartímar, grímuskylda og nálægðartakmarkanir.

Þetta kom fram á fréttamannafundi sem hófst kl. 11.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði að fundinum að einhverjar ráðstafanir verði í gildi á landamærunum. En frá og með 1. júlí ættu um 90% landsmanna að geta komist óhindrað til landsins.

Landamærin frá 1. júlí

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið breytingar á sóttvarnareglum á landamærum sem taka gildi 1. júlí og gilda til 15. ágúst. Þessar breytingar eru einnig í samræmi við minnisblað sóttvarnalæknis.

  • Þann 1. júlí verður sýnatökum hætt hjá þeim sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu með bóluefnum sem Lyfjastofnun Evrópu og/eða WHO hafa viðurkennt. Bólusetning telst gild tveimur vikum eftir að hlutaðeigandi fékk síðari skammt bóluefnis, en hafi fólk verið bólusett með bóluefni Janssen þarf ein vika að hafa liðið frá bólusetningu.
  • Sýnatöku verður hætt hjá börnum sem fædd eru 2005 eða síðar.
  • Þau sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu og fyrri sýkingu af völdum Covid-19 og börn fædd 2005 og síðar þurfa ekki að framvísa neikvæðum PCR-vottorðum við komuna til landsins frá og með 1. júlí.
  • Í tilvikum þeirra sem ekki geta framvísað gildum vottorðum um bólusetningu gegn Covid-19 eða fyrri Covid-19 sýkingu þarf áfram að framvísa neikvæðu PCR-vottorði við byrðingu og á landamærum, undirgangast skimun með PCR-prófi við komuna til landsins og dvelja í sóttkví í 5 daga og undirgangast seinni skimun að henni lokinni.