ÍA hættir rekstri líkamsræktarsalar og selur eignarhlut í mannvirkum á Jaðarsbökkum

Bæjarráð Akraness samþykkti á síðasta fundi sínum að ganga frá samkomulagi við Íþróttabandalag Akraness þar sem Akraneskaupstaður tekur yfir rekstur líkamsræktarsalar og eignarhald ÍA á þeirra hlut í mannvirkjum á Jaðarsbökkum.

Árlegt framlag til ÍA vegna þessa skal vera 15 milljónir króna á ári og tekur hækkunum samkvæmt neysluverðsvísitölu til verðtryggingar á hverju ári. Fyrsta hækkun framlagsins kemur fram árið 2023 og síðasta hækkunin í fjárhagsááætlun árið 2025 vegna ársins 2026.

Íþróttabandalag Akraness hefur um árabil staðið að rekstri líkamsræktarsals á Jaðarsbökkum. Ekki kemur fram í bókun bæjarráðs hvort breytingar verði á aðgengi fyrir iðkendur ÍA og almenning eftir að Akraneskaupstaður tekur yfir reksturinn.

Bæjarráð samþykkti á sama fundi að heildarframlag til ÍA árið 2022 verði kr. 45,0 milljónir.kr. í stað 39,6 milljónir.kr. framlags í núverandi samningi en framlagið var 20,0 m.kr. á árinu 2019.

Þetta framlag kemur til viðbótar við „Tómstundaframlag∏ til að auðvelda þátttöku barna og ungmenna í félags- og íþróttastarfi og til stuðnings fjölskyldum á Akranesi en er greitt til íþrótta- og frístundafélaga.

Jafnframt samþykkir bæjarráð að framlag ársins 2022 verði verðbætt samkvæmt neysluverðsvísitölu til verðtryggingar fyrir hvert ár til og með ársins 2026 og í samræmi við fjölgun íbúa á hverju ári. Fyrsta hækkun framlagsins kemur því fram árið 2023 og síðasta hækkunin í fjárhagsááætlun árið 2025 vegna ársins 2026. Útreikningar framlagsins skal miðuð við vísitölu janúarmánaðar ár hvert.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að ganga frá samningi til fimm ára um framangreint og koma með til bæjaráðs á ný til samþykktar.