Snæbjörn Gíslason er 104 ára í dag – Elstur núlifandi karlmanna á Íslandi

Snæbjörn Gíslason fagnar 104 ára afmæli sínu í dag en hann fagnar deginum með afmælisköku og kaffi á Dvalarheimilinu Höfða þar sem hann er búsettur. Snæbjörn er elstur núlifandi íslenskra karla.

Snæbjörn er fæddur á Litla-Lambhaga í Skilmannahreppi 22. febrúar 1918, sonur Gísla Gíslasonar bónda og kennara og Þóru Sigurðardóttur.

Hann átti sjö systkini sem sum hafa náð háum aldri. Kristín systir hans náði 100 ára aldri, Elísa varð 96 ára og Þórður 97 ára.

Snæbjörn giftist ekki og á ekki börn, en systkinabörn hans fylgjast með honum.

Snæbjörn starfaði við byggingavinnu en var lengstan sinn starfsaldur í fiskvinnslu hjá HB&Co.

Síðastliðin 8 ár hefur Snæbjörn búið á Hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi.

Það eru ekki margir íslendingar sem hafa lifað jafnmarga stórviðburði á ævi sinni.

Snæbjörn er fæddur frostaveturinn mikla, nokkrum mánuðum áður en Ísland fær fullllveldi.

Hann hefur lifað tvær heimsstyrjaldir svo ekki sé talað um allar þær miklu breytingar á lifnaðarháttum íslendinga á þessum 104 árum.

Í tilkynningu frá Höfða kemur fram að Snæbjörn fagnar deginum með afmælisköku og kaffi, og hver veit nema nokkrir gestir líti við í dag. Starfsfólk Höfða vill senda honum innilegar hamingjuóskir í tilefni dagsins.

Snæbjörn Gíslason fagnar 104 ára afmæli sínu í dag en hann fagnar deginum með afmælisköku og kaffi á Dvalarheimilinu Höfða þar sem hann er búsettur.
Snæbjörn er elstur núlifandi íslenskra karla en myndin var tekin í morgun 22.02.2022.
Bræðurnir Þórður t.v. og Snæbjörn Gíslasynir að undirbúa síldarsöltun á eyrinni árið 1965 –
en Snæbjörn var á þessum tíma 47 ára. Ljósm. Haraldarhús.