Gamli miðbærinn sækir í sig veðrið – Skólabraut 14 fær nýtt hlutverk

Gamli miðbærinn á Akranesi er að sækja í sig veðrið á ný og mikil umræða hefur átt sér stað um framtíð miðbæjarins á síðustu vikum.

Má þar nefna að Miðbæjarsamtökin Akratorg á Akranesi voru nýverið sett á laggirnar – með það að markmiði að glæða lífi að nýju í gamla miðbæinn.

Sögufrægt hús við Skólabraut 14 á Akranesi mun á næstu vikum fá nýtt hlutverk – og samkvæmt heimildum Skagafrétta eru spennandi hlutir í vændum í því húsi. Nánar verður greint frá þeim áformum í lok apríl eða byrjun maí.

Alþýðubrauðgerðarin á Akranesi var í þessu húsi allt fram til ársins 1963 þegar Hörður Pálsson bakarameistari breytti nafninu í „Harðarbakarí“ – en Hörður hafði tekið við og keypt rekstur Alþýðubrauðgerðarinnar árið 1958. Harðarbakarí var í þessu húsi allt fram til ársins 1983.

Frá þeim tíma hefur ýmis rekstur verið í húsinu við Skólabraut 14. Má þar nefna skyndibitastaðinn Stjörnukaffi, skemmtistaðinn Café Mörk, Brauðval og nú síðast Dularfulla búðin.

Eins og áður segir eru nýir eigendur að undirbúa opnun á starfssemi í húsinu við Skólabraut 14 – og verður ekki langt að bíða þar til að greint verður frá því greint verði frá þeim áformum.