Goðafræði og sement í aðalhlutverki í nöfnum á nýjum götum á Sementsreitnum

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum í gær nöfn á fimm nýjum götum í Sementsreitnum.

Í febrúar á þessu ári fór fram kosning á vef Akraneskaupstaðar þar sem að bæjarbúar gátu tekið þátt.

Aðeins 137 einstaklingar tóku þátt í kosningunni.

Götuheitin sem fengu flest atkvæði voru Sementsbraut (34% atkvæða) og Freyjugata, Óðinsgata, Skírnisgata og Sleipnisgata fengu 32% atkvæða.

Gata A á þessu korti hér fyrir neðan fær nafnið Sementsbraut, gata B fær nafnið Freyjugata, gata C fær nafnið Óðinsgata, gata D fær nafnið Skírnisgata og gata E fær nafnið Sleipnisgata.

Freyja er gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði.

Óðinn er æðstur guða í norrænni og germanskri goðafræði, þar sem hann er guð visku, herkænsku, stríðs, galdra, sigurs og skáldskapar.

Skírnir er úr goðafræðinni en hann var skósveinn Freys, sonar Njarðar.

Sleipnir var áttfættur hestur Óðins í norrænni goðafræði. Sleipnir fór um á skeiði og er sagður hafa myndað Ásbyrgi, en það er formað eins og hófur.

http://localhost:8888/skagafrettir/2022/02/16/oska-eftir-adstod-fra-baejarbuum-um-nofn-a-nyjum-gotum-a-sementsreitnum/