Björn Viktor sló draumahöggið á stórmóti á Hólmsvelli í Leiru



Björn Viktor Viktorsson, afrekskylfingur úr Leyni, gerði sér lítið fyrir og sló draumahöggið í dag á Leirumótinu sem er hluti af GSÍ mótaröðinni.

Skagamaðurinn efnilegi sló boltann ofaní 8. holuna í fyrsta höggi en holan er par 3 hola á Hólmsvelli í Leiru – heimavelli Golfklúbbs Suðurnesja.

Þetta er í annað sinn sem Björn Viktor fer holu í höggi en hann stimplaði sig inn í vinsælasta golfklúbbs landsins, Einherjaklúbbinn, árið 2016 þegar hann fór holu í höggi á 14. holu Hamarsvallar í Borgarnesi.

Björn Viktor endaði í 31. sæti í mótinu þar sem að bestu kylfingar landsins tóku þátt. Nánar um úrslit mótsins á golf.is.

Á hverju ári eru um 150.000 draumahögg slegin á heimsvísu. Allir kylfingar hafa látið sig dreyma um að fara holu í höggi en hverjar eru líkurnar á því að slíkt gerist?

12.500 – Meðalkylfingur þarf 12.500 tilraunir til þess að ná því að fara holu í höggi.

5.000 – Lágforgjafarkylfingur þarf um 5.000 tilraunir til þess að slá boltann ofan í holuna í teighögginu.

2.500 – Atvinnukylfingar þurfa aðeins færri tilraunir, eða um 2.500, til þess að sjá boltann detta ofaní holuna eftir upphafshöggið.

200 ára biðtími – Meðalkylfingur þarf 200 ár til þess að ná draumahögginu en þeir kylfingar sem leika 75 hringi að meðaltali á ári þurfa aðeins að bíða í 30 ár eftir að ná því að fara holu í höggi.

Á hvaða vikudegi eru mestar líkur á því að fara holu í höggi? – Jú, það er á þriðjudögum, samkvæmt tölfræðisamantekt á heimsvísu.

Ragnar Einarsson er yngsti íslenski kylfingurinn sem hefur farið holu í höggi. Hann var sex ára árið 1994 þegar hann fór holu í höggi. Arnar T. Sigþórsson er sá elsti sem hefur afrekað að fara holu í höggi af íslenskum kylfingum. Hann var 98 ára gamall árið 1985 þegar hann sló draumahöggið