Elsa Maren fékk háttvísisbikar GSÍ

Elsa Maren Steinarsdóttir hefur á undanförnum misserum skipað sér í fremstu röð í sínum aldursflokki í golfíþróttinni á Íslandi. Elsa Maren fékk á dögunum Háttvísisbikar GSÍ. 

Bikarinn er veittur þeim kylfingi undir 18 ára aldri sem endurspeglar hvað mest þá eiginleika sem Golfklúbburinn Leynir leggur mesta áherslu á í afreksstarfinu. Íþróttastjóri Leynis, Valdís Þóra Jónsdóttir, sér um tilnefninguna. 

Í umsögn Leynis segir: 
Elsa Maren er samviskusöm, þrautseig og vill alltaf gera betur. Elsa var valin í æfingahóp GSÍ fyrir Evrópumót stúlkna í júní og hefur verið tekið eftir framförum hennar af öðrum þjálfurum innan hreyfingarinnar. Elsa Maren var hluti af liði Leynis í bæði sveitakeppni drengja U18 og sveitakeppni kvenna. Hún fór taplaus í gegnum sveitakeppni U18 og var mikill liðsstyrkur við kvennasveitina þegar þær kepptu á Selfossi. Hún er vel að því komin að fá háttvísiverðlaunin fyrir 2022.