Skautasvellið við Grundaskóla er rennislétt, botnfrosið og tilbúið til notkunar 

„Nú er komið að því að bæjarbúar taki fram skautana og nýti aðstöðuna í frostinu sem er framundan,“ segir Jón Sverrisson garðyrkjustjóri Akraness í tilefni þess að skautasvell hefur nú verið opnað við Grundaskóla. 

„Þetta verkefni er hluti af viðburðum sem tengjast 80 ára kaupstaðarafmælis Akraneskaupstaðar. Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar hefur aðstoðað okkar með myndarbrag við þetta verkefni. Færum við þeim kærar þakkir. Skautasvellið er tilbúið, botnfrosið, rennislétt og óhætt að stíga út á það. Verkefnið er tilraunarinnar virði. Það hafa margir kallað eftir þessari framkvæmd. Skautasvellið er miðsvæðis í bænum og það er góð lýsing við svellið. Það er von okkar að sem flestir geti notið þess að skauta á svellinu og það fái að vera til staðar í friði,“ bætir Jón Sverrisson við.