Bílar verða áfram í aðalhlutverki í húsnæðinu þar sem að Bílver var áður

Nýir eigendur hafa nú tekið við húsnæðinu þar sem að Bílver hefur verið með starfsemi sína frá árinu 2006. 

Eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is hefur Bílver hætt starfsemi í húsnæðinu við Innesveg. 

Þjónusta við bifreiðar verður áfram til staðar í húsnæðinu en með öðru sniði.  

Fyrirtækið Löður mun setja upp bílaþvottastöð í hluta af húsnæðinu. Samkvæmt heimildum Skagafrétta verður bílaþvottastöðin í vesturenda húsnæðisins. Kallabakarí – sem er í austurenda hússins verður áfram í því húsnæði en bakaríið opnaði þar í byrjun ágústmánaðar árið 2018. 

Löður hafði áður sótt um að setja upp sjálfvirka bílaþvottastöð við bensínafgreiðslu Orkunnar við Skagabraut 43. 

Umsóknin var samþykkt í bæjarráði Akraness á fundi ráðsins þann 27. júlí á síðasta ári. Ekkert verður að byggingu á húsi undir bílaþvottastöð við Skagabrautina. 

Bílaþvottastöðin Löður var stofnuð árið 2000. Skel er eigandi Löðurs en fyrirtækið er með 15 bílaþvottastöðvar á landinu öllu.