Skaginn 3X lokar starfsstöð fyrirtækisins á Ísafirði

Starfsstöð Skagans 3X  á Ísafirði verður lögð niður og sameinuð starfsstöðinni á Akranesi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. 

Öllum 27 starfsmönnum fyrirtækisins á Ísafirði hefur verið sagt upp störfum. 

Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Skaginn 3X, segir  í tilkynningu að reksturinn hafi verið þungbær síðustu misseri og fyrirtækið hafi þurft að fara í viðamikið endurmat á skuldbindingum sínum í kjölfar eigendaskipta og erfiðra rekstrarskilyrða.

Þýska fyrirtækið Baader er eigandi Skaginn 3X en félagið keypti allt hlutafé í Skaginn 3X sumarið 2022. 

Sumarið 2022 var 16 starfsmönnum sagt upp hjá fyrirtækinu en í mars 2020 var alls 43 starfsmönnum sagt upp á Akranesi í starfsstöð Skagans 3X á Akranesi og Þorgeirs & Ellerts sem er einnig í eigu Baader.