Í dag, 12.janúar, eru 45 ár síðan félagsmiðstöðin Arnardalur opnaði fyrst dyr sínar fyrir börnum og ungmennum Akraneskaupstaðar. Þetta kemur fram í færslu á fésbókarsíðu Arnardals.
Þar segir:
„Síðastliðin 45 ár hafa húsakynni Arnardals verið eins og annað heimili margra og bera margir sterkar taugar til félagsmiðstöðvarinnar sinnar.
Gleði, væntumþykja, víðsýni, lýðræði, vinátta, sköpunargleði, samstarf og jákvæðni hafa verið rauður þráður alls þess fjölbreytta starfs sem unnið hefur verið undir formerkjum Arnardals.
Hugsjónir frumkvöðla í æskulýðsstarfi skiluðu sterkum grunni sem skapaði faglegt æskulýðsstarf og dásamlegar hefðir í félagsmiðstöðvalífi barna og ungmenna á Akranesi.
Tímarnir breytast og félagsmiðstöðin með. Unglingamenning breytist eins og íslenskt sumarveður og því hefur ávalt verið skýrt leiðarljós þeirra í forstöðu hverju sinni að vera lausnarmiðuð og sveigjanleg í nálgun í öllu starfi með ungu fólki.
Félagsmiðstöðin Arnardalur mun á þessum tímamótum nýta afmælisárið til þess að staldra við og líta um öxl.
Fyrsta skrefið var tekið í fyrstu viku ársins þegar starfsmenn Arnardals afhentu Ljósmyndasafni Akraness allar ljósmyndir sem safnast hafa saman í gegnum árin.
Með því viljum við varðveita ríka sögu félagsmiðstöðvarinnar og munum við deila þeirri sögu með ykkur öllum.
Hipp, hipp húrra fyrir ungu fólki, þá og nú.„
Arnardalur fagnar 45 ára afmæli í dag
By
skagafrettir