Bæjarráð Akraness tók nýverið fyrir erindi um málefni Árnahúss – sem stendur við Dvalarheimilið Höfða.
Gísli Gíslason, Rudolf B. Jósefsson, Sigursteinn Sigurðsson, Helena Guttormsdóttir, Karl Jóhann Haagesen og Sæmundur Benediktsson sendu inn erindið.

Í erindinu kemur m.a. fram að umrædd hús við Sólmundarhöfða séu í því ástandi að annaðhvort þurfi að endurgera húsin eða þau rifinn.
Bæjarráð vísaði erindinu til umsagnar stjórnar Höfða og er þetta í annað sinn sem það er gert.
Í byrjun ársins 2023 var þetta mál einnig til umfjöllunar í stjórnsýslunni. Bæjarráð Akraness lýsti þá yfir áhuga á að endurgera Árnahús við Sólmundarhöfða í samvinnu við Minjastofnun. Í bókun ráðsins kom fram að verkefnið gæti orðið að samfélagsverkefni þar sem að ýmsir aðilar myndu leggja hönd á plóginn.
Stjórn Höfða tók málið til umfjöllunnar í febrúar 2023. Á þeim tíma lagðist stjórnin gegn áformum bæjarráðs.
Árnahús var samkvæmt gögnum byggt árið 1901 og því að lögum friðað, en hlaðan og stækkun gamla hússins gerð á árunum 1951 og 1952. Laust fyrir 1900 voru a.m.k. sex býli á Sólmundarhöfða auk leiguliða en á 20. öld fækkaði húsum og ábúendum jafnt og þétt og stendur nú Árnahús eitt eftir af fyrri byggð.
Þar bjó síðast Sigursteinn Árnason, sem fæddist á Sólmundarhöfða árið 1915, en hann bjó þar alla tíð en andaðist á dvalarheimilinu Höfða árið 2011 þá 95 ára gamall.
Hér má lesa pistil sem Gísli Gíslason skrifaði um Árnahús á vef Skagafrétta í apríl 2019.

