Drög að frumvarpi með tillögum að víðtækum breytingum á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvaldatil umsagnar.

Í frumvarpinu m.a. er gert ráð fyrir því að 10% íbúa sveitarfélaga með færri en 1000 geta farið fram á sameiningarviðræður og atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélagsins við aðliggjandi sveitarfélög.

Til samanburðar voru 532 á kjörskrá í síðustu sveitastjórnarkosningum í Hvalfjarðarsveit – sem þýðir að 54 einstaklingar með lögheimili í Hvalfjarðrsveit gætu sameinast og farið fram á slíkar viðræður við t.d. Akraneskaupstað eða Borgarbyggð. 

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að 10% íbúa sveitarfélaga með fleiri en 1000 geta farið fram á að sveitarstjórn vinni álit um stöðu sveitarfélags og í kjölfarið farið fram á sameiningarviðræður og atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélagsins við aðliggjandi sveitarfélög.

Ef þessi tillagar er yfirfærð á Akranes þá voru rétt um 5700 á kjörskrá í síðustu sveitastjórnarkosningum – og gætu því 570 einstaklingar með lögheimili á Akranesi sameinast um að fara fram á slíkar viðræður. 

 

Í tilkynningu kemur fram að markmiðið með breytingunum sé að efla sveitarstjórnarstigið í heild sinni. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 13. október 2025.

Í frumvarpsdrögunum eru lagðar til breytingar á almennum reglum sem varða stjórnsýslu sveitarfélaga, íbúalýðræði og samráð, samvinnu sveitarfélaga, fjármál og reikningsskil sveitarfélaga, starfshætti kjörinna fulltrúa, eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga, o.fl. Breytingar eru lagðar fram í takt við aðgerðaáætlun með stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024-2038.

Unnið hefur verið að endurskoðun sveitarstjórnarlaga um alllangt skeið í náinni samvinnu við sveitarstjórnarstigið, m.a. með vinnustofum með starfsfólki og kjörnum fulltrúum sveitarfélaga og landshlutasamtökum fyrr á árinu. Þá hélt innviðaráðherra fundi með íbúum og sveitarstjórnarfólki í öllum landshlutum í ágúst sl.

Yfirlit um helstu tillögur til breytinga

Gerðar eru breytingar á fjölmörgum ákvæðum sveitarstjórnarlaganna en þær skiptast einkum í eftirfarandi efnisflokka.

Aukin áhrif byggðalaga innan sveitarfélaga

  • Heimastjórn, nefnd sem fer með sérstakar valdheimildir verði skilgreind.
  • Heimild íbúa í byggðakjörnum innan sveitarfélaga með yfir 250 íbúa að fara fram á að nefnd sem fari með málefni þeirra verði skipuð.

Fjárhagslegur grundvöllur sveitarfélaga

  • Flokkun í bókhaldi sveitarfélaga skiptist í A, B og C flokk.
  • Sveitarstjórn skylt að setja sveitarfélaginu fjármálastefnu.
  • Í stað fjárhagsáætlunar er kveðið á um fjármálaáætlun til fimm ára og fjárheimildir, þ.e. bindandi reglu um fjárhagslegar ráðstafanir næsta árs.
  • Fjármálareglur um jafnvægi í rekstri og skuldaviðmið nái einnig til A-hluta í reikningsskilum sveitarfélaga.
  • Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og reiknings- og upplýsinganefnd sveitarfélaga sameinaðar og skerpt á eftirlitshlutverki hinnar nýju nefndar.

Samvinna sveitarfélaga

  • Hlutverk, stjórnsýsla og ábyrgð á starfsemi byggðasamlaga, sveitarfélaga sem taka við verkefnum annarra sveitarfélaga og landshlutasamtaka sveitarfélaga skýrð.
  • Aðalfundur aðildarsveitarfélaga í byggðasamlögum verður æðsta vald þeirra.
  • Aðkoma kjörinna fulltrúa að starfsemi byggðasamlaga aukin og skýrð.

Aukið traust á stjórnsýslu sveitarfélaga

  • Málsmeðferð við ákvörðun um hæfi sveitarstjórnarmanna skýrð.
  • Framsalsheimildir sveitarstjórnar til byggðaráðs, fastanefnda og starfsmanna skýrðar.
  • Siðareglur skulu ná yfir framkvæmdastjóra og æðstu stjórnendur sveitarfélaga.
  • Sveitarfélög skulu setja sér reglur um hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa, framkvæmdastjóra og æðstu stjórnendur.
  • Kjörnir fulltrúar sem ekki eru launþegar hjá sveitarfélagi skulu geta um allar greiðslur sem þá fá frá sveitarfélagi í hagsmunaskráningu.
  • Reglur um eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélag skýrðar.
  • Heimild íbúa sveitarfélaga, starfsmanna þeirra og kjörna fulltrúa að senda nafnlausar ábendingar til ráðuneytisins um ólögmæta stjórnsýslu sveitarfélaga.
  • Heimild ráðherra að leggja á stjórnvaldssektir á sveitarfélög vegna alvarlegrar eða ítrekaðar vanrækslu ef önnur úrræði leiða ekki til að sveitarfélag framfylgi lögum.
  • Vafaatriðum um fundarboðun og framkvæmd funda sveitarstjórna eytt.

Íbúalýðræði

  • Leiðbeinandi reglur um samráð sveitarfélaga við íbúa.
  • Skerpt á ákvæðum um íbúakosningar sveitarfélaga.

Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa

  • Ákvæði um kjör sveitarstjórnarmanna skýrð.
  • Ákvæði um heimildir sveitarstjórnar til aðgangs að gögnum í stjórnsýslu sveitarfélaga skýrð.

Sjálfbærni sveitarfélaga

  • 10% íbúar sveitarfélaga með færri en 1000 geta farið fram á sameiningarviðræður og atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélagsins við aðliggjandi sveitarfélög.
  • 10% íbúa sveitarfélaga með fleiri en 1000 geta farið fram á að sveitarstjórn vinni álit um stöðu sveitarfélags og í kjölfarið farið fram á sameiningarviðræður og atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélagsins við aðliggjandi sveitarfélög.
  • Skýrar reglur um að kostnaðarskipting vegna samvinnu sveitarfélaga byggi á raunkostnaði við starfsemi í hverju sveitarfélagi.
  • Sveitarfélag sem tekur við verkefnum annars sveitarfélags er heimilt að reikna sérstakt álag vegna veittrar þjónustu.
  • Ráðherra skal eiga frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga sem eru undir 250 nema sérstakar aðstæður mæla því í mót og að sameining verði lokið við sveitarstjórnarkosningar 2026.

Nánar um frumvarpsdrögin

  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?